Janúar recap – hvað er að frétta?

Gunnhildur Lind ljósmyndari

Frá nýársgöngutúr okkar mömmu við strandlínuna í Borgarnesi. Myndina tók mamma.

Janúar hefur liðið ótrúlega hratt – mikið um að vera og mikið nýtt í nýjum bæ hér á Eskifirði ❄️ Stór kostur við að vera flutt í nýjan bæ og þekkja ekki marga er að sökkva sér algjörlega í allskonar verkefni (bæði kostur og galli að vísu – ekki kynnist maður mörgum sitjandi heima hjá sér í tölvunni 👩‍💻 En það kemur!).

Ég hef verið að vinna í alls konar skemmtilegum verkefnum, svona bakvið tjöldin verkefnum, bæði í ljósmynduninni og hjá mér í hversdeginum. Hér er smá yfirferð á því sem ég hef verið að brasa undanfarið.

Nýtt á heimasíðunni 💻

Í janúar voru skrifaðar þrjár bloggfærslur (þar með talin þessi hér) sem ég er mjög ánægð með. Markmiðið er enn að birta eina bloggfærslu á viku, fimmtudögum. Hér má sjá fyrri janúar færslur.

  1. 📸 Hvenær er best að taka fermingarmyndirnar?

    • Þessi færsla fjallar um hvers vegna það er frábær hugmynd að taka myndir fyrir eða eftir fermingardaginn sjálfan. Minna stress, betra veður og meiri sveigjanleiki.

  2. 📝 Viðtal: Anna Sólrún Kolbeinsdóttir

    • Anna Sólrún svarar nokkrum spurningum um brúðkaup hennar og Friðriks í birkikjarri við Hvítá í Borgarfirði. Einu viðstödd voru brúðhjón, börnin þeirra tvö, prestur og ljósmyndari (ég).

Einnig er ég búin að setja upp nýja síðu sem er sérstaklega tileinkuð fermingarmyndatökum. Þar eru allar helstu upplýsingar á einum stað. Síðan veitir góða yfirsýn yfir pakkana sem ég býð upp á, svarar nokkrum algengum spurningum ásamt því að sýna nokkur sýnishorn af myndum frá fyrri tökum. Ef þú ert að skipuleggja fermingu, þá er þessi síða fyrir þig.

Fermingarmyndataka.

Frá fermingarmyndatöku í Englendingavík í Borgarnesi vorið 2023.

Lét vita af mér 📣
Í janúar (í síðustu viku) ákvað ég að stíga skrefið og auglýsa þjónustuna mína í bæjargrúbbum hér á Austurlandi. Það var hægara sagt en gert (af hverju er erfitt að segja „Hæ, hér er ég og ég geri svona og svona 👋“?). En loksins hafðist það hjá mér og gaman að fá bókanir í landshlutanum. Vona að þær verði fleiri eftir því sem líður á. Spennt að kynnast fleiri fjölskyldum hér á svæðinu. Viðbrögðin hafa allavega verið mjög hlýleg og góð, sem ég er þakklát fyrir.

Ef þú ert búsett/ur á Austurlandinu þá vertu velkomin/n að senda mér skilaboð ef þig langar í t.d. fermingarmyndatöku eða fjölskyldumyndir 📸

Nokkur persónuleg markmið 🎯
Ásamt því að vera með ýmis markmið tengd ljósmynduninni, þá finnst mér líka mjög gaman að setja sjálfri mér fjölbreytt markmið. Og þar sem janúar er mikill marmkiðamánuður þá setti ég mér nokkur verkefni fyrir:

  • Golf 🏌️‍♀️ – Ég er staðráðin í að sumarið 2025 verði sumarið sem ég bæði kemst undir 20 í forgjöf (er núna í 21.9) og spila 18 holu golfhring undir 90 höggum. Síðast þegar ég var undir 20 í forgjöf, þá var ég 15 ára. Svo spilaði ég ekki í 15 ár, hafði 0 áhuga. Eftir að ég byrjaði aftur í golfinu í Covid, þá hefur forgjöfin bara farið hækkandi 😅 EN að spila undir 90 höggum, því hef ég aldrei náð. Ég var næst því í fyrra þegar ég spilaði á 93. Til að þetta verði að veruleika, þá er ég komin með þjálfara sem ég sendi reglulega vídjó á og fæ til baka feedback og drillur til að gera. Ég hlakka allavega mikið til golfsumarsins 2025.

  • Súrdeigsbrauð 🍞 – Mig hefur lengi langað til að baka mitt eigið súrdeigsbrauð og vera með minn eigin súr. Það er komið af stað. Fyrst var þetta mjög tímafrekt ferli og fullmikið dúll. En með hverju súrdeigsbrauðinu þá læri ég handtökin betur og súrdeigsrútínan verður alltaf aðeins skilvirkari.

  • Sykurlaus áskorun í 2 vikur 🚫🍬 – Síðasta sunnudag setti ég mér áskorun að sleppa auka sykri næstu tvær vikurnar. Aðallega snýst þetta um að fara ekki í nammið eftir kvöldmat. So far so good. Ég er mest forvitin að sjá hvernig sykurleysið (þá sérstaklega á kvöldin) hefur áhrif á líkamann og allt systemið eins og t.d. svefngæði. Sjáum hvernig þetta þróast.

Loks, til að loka þessari janúar yfirferð, þá eru hér góð orð inn í nýjan mánuð:

„To love your habits is to love your days and to love your days is to love your life.“

–James Clear, höfundur Atomic Habits


Þangað til næst,
Gunnhildur Lind

Previous
Previous

Viðtal: Elísa Svala – blómahönnuður 🌸

Next
Next

Hvenær er best að taka fermingarmyndirnar – pssst, það þarf ekki að vera á daginn sjálfan!