Hvenær er best að taka fermingarmyndirnar – pssst, það þarf ekki að vera á daginn sjálfan!

Fermingarmyndataka á Vesturlandi.

Fermingin er stór dagur í lífi hvers barns og fjölskyldu. Þetta er svona ákveðinn punktur í lífinu sem maður gleymir ekki. Maður man allskonar smáatriði, eins og t.d. fötin sem voru valin, hvernig efni var í þeim, hárgreiðslan og af hverju maður valdi þessa hárgreiðslu en ekki einhverja aðra, hvaða litaþema maður valdi (í minningunni var stórt að velja litaþema og fara svo og versla dúka og servíettur í stíl – ég var með bleikt og fjólublátt þema), hvaða gjafir maður fékk (mikið sport að fá pening t.d.) og jafnvel hvernig manni leið á fermingardaginn sjálfan.

Það mætti eiginlega setja samasemmerki á milli orðanna ferming og myndataka. Öll vilja eiga fallegar myndir til að minnast dagsins. Ég þakka reyndar fyrir það í dag að það voru ekki komnir samfélagsmiðlar þegar ég fermist, það var ekki verið að deila einu né neinu út um allar trissur eins og í dag. Einu fermingarmyndirnar af mér sem lifa enn í dag má eingöngu finna upp á vegg og í myndaalbúmi heima hjá mömmu og pabba og svo jólakortum sem voru send út það árið til ættingja og vina. That’s it.

Frá fermingarmyndatöku 2024

Ég man enn hvað mér leið óþægilega fyrir framan myndavélina og hvað mér fannst ég eitthvað asnaleg. Kannski eðlileg tilfinning í þessum aðstæðum. Myndataka var ekki daglegt dæmi hjá mér + ég var í pilsi og skóm með svo litlum hælum að það var varla hægt að kalla þá háhælaða skó. Þetta var allt eitthvað sem ég var ekki vön. Mér leið best með hárið í tagli, í stuttbuxum og bol á körfuboltaæfingu, eða í einhverskonar hversdagsfötum (buxur + peysa).

Sama hvað þá er myndataka partur af þessu tímabili og markmiðið mitt er fyrst og fremst að fermingarbörnum líði vel (mun betur en mér leið allavega) í myndatökunni.

Ein leið sem ég mæli sterklega með að fermingarbörn og foreldrar pæli í í fermingarundirbúningnum, og til að öllum líði vel OG til að minnka stress, er að hafa myndatökuna annan dag en fermingardaginn sjálfan.

Margir halda að fermingarmyndatakan verði að fara fram á sjálfan fermingardaginn, það hefur verið hefðin (við gerðum það t.d. á sínum tíma, bæði hjá mér og bræðrum mínum tveimur) en það er alls ekki raunin í dag. Reyndar getur það verið mikill léttir að taka myndirnar á öðrum tíma.

Til að bakka þá leið upp þá hef ég tekið saman fimm kosti þess að velja annan dag fyrir fermingarmyndatökuna – þannig að fermingarbarnið og ekki síst foreldrarnir geti notið dagsins í botn án aukins stress.

 

5 kostir þess að taka fermingarmyndirnar á öðrum degi

  • Minna stress á fermingardaginn

    • Við vitum öll hversu annasamur fermingardagurinn er – athöfnin, veislan, gestirnir og allt umstangið. Að bæta við myndatöku á þessum degi getur verið meira en nóg. Með því að taka myndirnar fyrirfram er hægt að slaka á og njóta dagsins betur með fjölskyldu og vinum. OG, nota myndirnar til sýnis í veislunni.

  • Betra veður

    • Veðrið á Íslandi er óútreiknanlegt, og ef myndatakan er á öðrum degi er hægt að velja þann dag sem best hentar veðurskilyrðum. Þannig geturðu tryggt fallegt ljós og forðast óvæntar rigningar eða rokrass.

  • Meiri sveigjanleiki með staðsetningu

    • Á fermingardaginn er oftast takmarkaður tími, sem þýðir að myndatakan fer yfirleitt bara fram nálægt kirkju eða veislustað sem getur reynst takmarkað fyrir myndatökur. Ef valinn er annar dagur þá er hægt að fara á fallega staði í náttúrunni eða á sérstaka staði sem skipta fjölskylduna máli.

  • Meiri tími til að njóta dagsins og vera með gestunum

    • Fermingardagurinn er einstakur og líður ótrúlega hratt. Með því að klára myndatökuna á öðrum degi getur fermingarbarnið eytt meiri tíma með fjölskyldu og vinum, notið veislunnar og alls þess sem dagurinn hefur upp á að bjóða – án þess að þurfa að stökkva út í myndatöku á milli atriða.

  • Möguleiki á að endurtaka ef þarf

    • Ef eitthvað fer úrskeiðis á fermingardaginn – til dæmis ef hárið heldur ekki sér eða fötin verða óhrein – þá er ekkert rými fyrir að taka myndirnar aftur. Með myndatöku á öðrum degi hefurðu tækifæri til að skipuleggja hlutina betur og jafnvel taka fleiri myndir ef þörf er á.

Fermingarmyndataka á Vesturlandi.

Frá fermingarmyndatöku í Stykkishólmi 2024.

Það er engin ein rétt leið þegar kemur að fermingarmyndatökunni, en með því að velja annan dag en fermingardaginn sjálfan geturðu gert allt mun einfaldara og minnkað stress. Þannig gefst fjölskyldunni meiri tími til að njóta, og myndirnar verða jafnvel fallegri og persónulegri fyrir vikið.

Þannig að, ef þú ert að skipuleggja fermingu – þá langar mig að skora á þig að taka myndirnar fyrir eða eftir sjálfan daginn. Í það minnsta viðra þann möguleika. Þannig geturðu gert daginn sjálfan muuun afslappaðri.

Gangi þér vel og njóttu fermingarundirbúningsins! 💖

Þangað til næst,
Gunnhildur

P.s. Hér er hægt að skoða allt um fermingarmyndatökur + bóka myndatöku.

P.s.s. Hér er hægt að fá tékklista fyrir næstu fjölskyldumyndatöku beint í inboxið.

Previous
Previous

Janúar recap – hvað er að frétta?

Next
Next

Viðtal: Anna Sólrún Kolbeinsdóttir