Viðtal: Anna Sólrún Kolbeinsdóttir
Anna Sólrún og Friðrik Pálmi giftu sig í lautinni sinni við Hvítá í Borgarfirði, á jörð foreldra Önnu snemma í október á síðasta ári. Lautin þeirra, eins og þau kalla staðinn, er umkringd þéttu birkikjarri og á þessum árstíma voru haustlitirnir allsráðandi, í raun fullkominn staður fyrir litla og innilega athöfn. Einu sem voru viðstödd athöfnina voru brúðhjónin, börnin þeirra tvö Ástdís og Emil, Heiðrún Helga Bjarnadóttur Back prestur og svo ljósmyndarinn, ég. Eitt af því sem skipti Önnu miklu máli var að eiga fallegar myndir frá deginum og ég var aldeilis tilbúin að taka það að mér þegar fyrirspurnin kom.
Það sem ég hef lært síðustu 7 ár sem ég hef starfað sem brúðkaupsljósmyndari er að það er ekki til einhver ein ákveðin uppskrift að brúðkaupi sem á við fyrir alla. Brúðkaup eru allskonar. Þau geta verið stór og lítil, með 100 gestum eða engum gesti – Ekkert brúðkaup er eins.
Ég held líka að það sé aldrei hægt að minna nóg of oft á þetta, að ekkert brúðkaup er eins og að brúðkaup mega vera allskonar – líka lítil. Þess vegna sendi ég nokkrar spurningar á Önnu Sólrúnu með það í huga að veita öðrum verðandi brúðhjónum innblástur og sýna að þetta má og er hægt.
Enn fremur vil ég sýna að brúðkaup þarf ekki að taka ár í undirbúning, heldur er hægt að skipuleggja allt innan mánaðar eins og Anna Sólrún og Friðrik gerðu (veit af fleiri brúðhjónum sem hafa gert þetta og hafa átt yndislegan brúðkaupsdag).
Lesa má svörin hennar Önnu Sólrúnar hér fyrir neðan.
Hvað varð til þess að þið ákváðuð að gifta ykkur í íslenskri náttúru? Var einhver tenging við staðinn sem þið völduð að hafa athöfnina ykkar?
Við elskum að vera úti og á þessum árstíma þar sem haustlitirnir eru allsráðandi að þá kom eiginlega ekki annað til greina, það var hreinlega ekki rætt neitt annað – nema ef mjög illa færi að þá gætum við hoppað inn í kirkjuna heima.
Staðurinn er á jörð foreldra minna, laut í birkikjarri með Hvítánna nokkrum metrum frá. Ég hef frá barnsaldri elskað þennan stað. Staðurinn er líka alveg við reiðleið sem við systkinin fórum mjög oft sem krakkar – og gerum enn, og mjög oft voru einhverjir búnir að tjalda þarna. Það var svo mission að reyna að rukka tjaldbúana um 500 kall fyrir að tjalda þarna sem langflestir tóku mjög vel í og sumir fengu líka að hoppa á bak.
Var veðrið á brúðkaupsdaginn eitthvað sem ykkur þótti skipta máli, eða voruð þið bara tilbúin að takast á við íslenska veðráttu hvernig sem hún yrði þann daginn?
Við vonuðumst að sjálfsögðu eftir góðu veðri og vikurnar á undan var búið að vera svo geggjað haustveður og litirnir í S-inu sínu! Það fór svo eitthvað að versna spáin þannig backup planið var að hoppa inn í kirkjuna heima hjá foreldrum mínum en bara ef það væri ekki stætt úti vegna veðurs (það vissi auðvitað engin af þessu svo það hefði pínu skemmt það).
Hafið þið alltaf viljað hafa litla og persónulega athöfn, eða var þetta eitthvað sem þróaðist með tímanum?
Þegar ég var yngri dreymdi mig auðvitað um þetta stóra hvíta brúðkaup á meðan Friðrik hafði engan áhuga á að gifta sig yfir höfuð. Það var samt eitthvað við þetta stóra hvíta, ég sá mig aldrei fyrir mér í aðstæðum brúðarinnar eins og mér finnst geggjað að mæta í slík brúðkaup hjá öðrum. Ég hafði einhvern veginn snúist með þetta lengi en sá mig mikið frekar fyrir mér í rólegum aðstæðum með litlu fjölskyldunni okkar. Það má því segja að við höfum mæst á miðri leið.
Hvaðan sóttuð þið innblástur fyrir daginn?
Ég hef alltaf dáðst af fallegum brúðkaupsmyndum úti í náttúrunni og eitt það helsta sem ég vildi fá út úr deginum voru fallegar myndir.
Hvernig var tímalínan frá því þið ákveðið að gifta ykkur og þangað til þið giftuð ykkur svo, var aðdragandinn langur/stuttur?
Það var í rauninni mjög stuttur tími þannig séð, við höfðum verið saman í 12 ár þannig þetta var svosem alltaf á stefnuskránni, en frá því við ákváðum þetta og fram að deginum sjálfum var 3-4 vikur.
Hvernig skipulögðuð þið daginn? Var eitthvað sérstaklega krefjandi við að halda athöfnina á svona einstökum stað?
Það eina sem þurfti að ganga upp var að uppáhalds ljósmyndarinn okkar og GLEÐISPRENGJAN kæmist og einnig Heiðrún prestur sem ég þekkti lítið sem ekkert en það sem ég hafði séð og heyrt af henni var akkúrat það vibe sem við vildum – svo ótrúlega góð nærvera, talar á mannamáli og skemmtileg án þess að það fari út í einhverja vitleysu (amma gamla hér).
Voru börnin ykkar hluti af skipulaginu? Voru þau með ákveðin hlutverk á brúðkaupsdaginn?
Þau voru ekki mikið með í skipulaginu sjálfu, fengu að vita af þessu tilstandi í kvöldmatnum daginn fyrir! En fengu svo hlutverk að geyma hringana okkar og rétta okkur.
Hvernig var að deila þessu augnabliki einungis með börnunum ykkar? Finnst ykkur það hafa gert daginn enn persónulegri?
Já, ég hef ekki séð eftir því eitt sekúndubrot! Það var alveg stór ákvörðun að bjóða engum – en ég hefði aldrei getað valið úr þennan en ekki þennan. Allir eða enginn. Fyrir vikið var þetta ótrúlega dýrmæt fjölskyldustund sem við eigum fjögur saman.
Var einhver sérstök stund á brúðkaupsdaginn sem stendur upp úr fyrir ykkur?
Dagurinn var fullkominn frá byrjun til enda, en við völdum svo sannarlega réttu vottana því þegar við komum heim um kvöldið var búið að skreyta heimilið með rósablöðum, kæla freyðivín, jarðarber með súkkulaði og gjafir. Þá grenjaði ég í 100. skipti þann daginn!
Það vissi bókstaflega enginn af þessu (ætlaði að skrifa hvorki kóngur né prestur en það hefði verið lygi... Hahaa) nema presturinn, ljósmyndarinn og tveir vottar.
Hvernig voru viðbrögðin eftir brúðkaupið þegar þið tilkynntuð svo giftinguna?
Þau voru ótrúlega góð – sumir sögðu loksins á meðan aðrir þóttust (held ég) vera svekktir að hafa ekki verið boðið. Skyndiákvörðunin með að taka athöfnina upp, þótt ekki væri nema á símann, kvöldið áður steinlá líka því mér fannst gaman að geta sýnt foreldrum okkar og mögulega fleirum seinna meir athöfnina.
Ein skyndiákvörðun sem Anna fékk var að taka athöfnina upp á vídjó. Það vildi svo til að ég var nýbúin að kaupa mic sem mig dauðlangaði að prófa almennilega. Ég stakk því upp á að ég myndi koma með þrífótinn minn undir símann, smella mic á Heiðrúnu prest og taka allt saman upp fyrir þau. Sem kom svo vel út, bæði í mynd og hljóði og yndislegt fyrir þau að eiga.
Er planið að halda veislu seinna?
Það blundar í okkur smá sveitaballaljón og planið er því að bjóða í gott hlöðupartý við tækifæri.
Hafið þið einhver ráð fyrir pör sem langar til að halda svipað brúðkaup í íslenskri náttúru?
Íslenska náttúran hefur svo ótal margt að bjóða og allir geta fundið stað við sitt hæfi. Ég er nokkuð staðföst á því að okkar upplifun af deginum hefði aldrei verið eins ef við hefðum farið inn í kirkju eða álíka, náttúran gerði bara allt svo miklu draumkenndara fyrir utan spennuna hvort hann skyldi hanga þurr eða ekki! Það er líka hægt að fara svo margar leiðir að því að vera úti, hvort sem þú viljir miklar og flottar skreytingar eða bara láta náttúruna sjálfa njóta sín.
En ég segi að ef þú ert yfir höfuð pínulítið að pæla í því: GO FOR IT!
Þangað til næst,
Gunnhildur Lind