Viðtal: Elísa Svala – blómahönnuður 🌸

Blóm geta algjörlega slegið tóninn fyrir brúðkaupsdaginn – en hvernig velur maður? 🌿💐

Ef þú ert í brúðkaupshugleiðingum og langar að gera daginn enn fallegri með náttúrulegum, persónulegum og vel útfærðum blómaskreytingum, þá ertu í góðum félagsskap. Ég fékk að spjalla við Elísu Svölu Elvarsdóttur, blómahönnuðinn á bak við @svolustra á Instagram, um blómaskreytingar í brúðkaupum, hvernig hægt er að gera þær bæði vistvænar og fjölnota, og hvaða skref skipta mestu máli í undirbúningnum.

Elísa er með einstakt auga fyrir smáatriðum og brennandi áhuga á því að skapa fallegar og persónulegar skreytingar fyrir brúðhjón – hér deilir hún bæði gagnlegum ráðum og innblæstri fyrir öll sem eru að skipuleggja brúðkaup ✨

Kíkjum á spjallið 👇

Hver er sagan á bak við blómaskreytingaferilinn og hvaðan kemur blómaáhuginn?

Heyrðu, ég tók eiginlega U-beygju í lífinu fyrir þremur árum þegar ég skráði mig á blómaskreytingabraut í Garðyrkjuskólanum í Ölfusi. Ég hafði verið þjálfari í 15 ár og alltaf í íþróttum, en þá fékk plöntu- og blómaáhuginn loksins að skína. Ég hef alltaf verið mikið fyrir plöntur og blóm – ég man enn eftir sólstofunni hjá ömmu og afa, þar sem allt var grænt, og ég beið alltaf spennt eftir því að fá að vökva og vera innan um blómin.

Geturðu lýst sýninni og pælingunni á bak við lokaverkefnið þitt í Garðyrkjuskólanum?

Vorið 2024 útskrifaðist ég sem blómaskreytir, og lokaverkefnið mitt hét „Íslenska ástin blómstrar“. Ég vann að því í apríl og maí, þar sem ég valdi að einbeita mér að nútíma og vistvænum brúðkaupsskreytingum. Ég notaði eingöngu blóm ræktuð á Íslandi, og markmiðið var að skreytingarnar væru margnota, færanlegar og hentuðu sérstaklega vel fyrir íslensk brúðkaup. Það er hægt að sjá skreytingarnar úr verkefninu inn á @svolustra.

Hvernig myndir þú lýsa þínum stíl þegar kemur að blómum og brúðkaupum?

Ég er enn að finna minn eigin stíl og elska þegar pör koma með sínar hugmyndir. En ef ég ætti að lýsa því í nokkrum orðum, þá væri það nýjungar í klassískum og fíngerðum stíl. Ég pæli mjög mikið í smáatriðum og heildarmyndinni, því allt þarf að passa saman.

Myndir frá lokaverkefni Elísu í Garðyrkjuskólanum: „Íslenska ástin blómstrar“.

Hvaða upplýsingar viltu helst fá frá brúðhjónum þegar þau senda fyrirspurn um brúðarvendi eða skreytingar?

Það er alltaf best að fá sem mestar upplýsingar strax, þó þær breytist oft í ferlinu. Upplýsingar eins og dagsetning og tímasetning, óskir um liti og blóm (myndir af hugmyndum eru frábærar!), stærð og form á brúðarvendinum og litur á borða. Ég sendi líka alltaf spurningalista til baka til að fá öll smáatriðin á hreint.

Skiptir árstíð miklu máli þegar kemur að brúðkaupsblómum á Íslandi?

Já það skiptir mjög oft máli og getur verið mjög skemmtilegt að pæla í því hvaða blóm eru í „blóma“ eða ræktun á hvaða árstíð því þá getur ferskleikinn og gæði blómana skipt öllu máli. Til dæmis þá myndi ég ekki mæla með neinum hortensíum á vetrarmánuði heldur væru þær betri og sterkari á sumrin og haustin. Eða ætla að fá páskalilju í október – það er held ég ófáanlegt... Árstíðin skiptir alltaf máli ef einhver sérstök blóm eiga að vera í vendinum eða skreytingunum upp á að vera fáanleg.

Blómahönnun eftir Elísu fyrir júníbrúðkaup.

Hvernig tryggir þú að blómaskreytingarnar séu eins náttúrulegar og vistvænar og mögulegt er?

Ég leitast alltaf við að nota íslensk ræktuð blóm þegar það er hægt og nota minnst af plasti í skreytingum. Ég nota mikið vír, náttúruband og pappa í staðinn og reyni að endurnýta efni eins og sellófilmu og plast.

Eru íslensk blóm mikið notuð í brúðkaupum?

Já, og úrvalið er alltaf að aukast! Ég elska að nota íslensku flóruna og blóm sem finnast í náttúrunni. Mitt draumaverkefni væri að hanna brúðkaupsskreytingar eingöngu úr íslenskum blómum.

Hvaða litapallettur vinna brúðhjón mest með? Færðu mikið frelsi í hönnunina?

Ég heillast mikið af pastellitum og jarðlitum, en ég læt mína skoðun alltaf víkja fyrir brúðhjónunum. Þetta er þeirra dagur, og ég legg áherslu á að skreytingarnar endurspegli þau og þeirra persónulega stíl.

Hvers konar brúðarvendi er hægt að velja um?

Brúðarvendir eru eins mismunandi og brúðhjónin sjálf. Ef pör hafa enga ákveðna hugmynd sendi ég þeim dæmi um mismunandi stíla til að finna út hvað þeim líkar best.

Ég fékk þann heiður og skemmtilega gigg að mynda lokaverkefni Elísu í Garðyrkjuskólanum. Hér eru nokkrar bakvið tjöldin myndir.

Hvernig er hægt að nýta blómaskreytingar í brúðkaupinu þannig að þær nýtist meira yfir brúðkaupsdaginn?

Ó, ég elska praktískar skreytingar sem eru færanlegar og hægt að nota á fleiri en einum stað. Til dæmis gerði ég skreytingar í potta fyrir útibrúðkaup – þeir mynduðu gönguleiðina að altarinu, en voru svo færðir yfir í veisluna til að skreyta barborðið, gestabókarsvæðið og setustofuna. Svona lausnir eru bæði fallegar og praktískar.

Tákn blóma – eiga ákveðin blóm einhverja sérstaka merkingu?

Við lærðum í skólanum að þetta væri bara gömul hjátrú, en mér finnst samt fallegt að láta blóm tákna eitthvað persónulegt fyrir hvert og eitt par. Til dæmis, ef brúðguminn gaf brúðinni fyrst túlípana á fyrsta stefnumótinu, þá væri fallegt að nota þá í skreytingunum til að minna á það. Eða ef einhver nákominn sem hefur fallið frá elskaði ákveðin blóm, þá er hægt að nota þau til að halda minningu þeirra á lífi. Svo er líka alltaf klassískt að fylgja gömlu brúðkaupshefðinni: eitthvað gamalt, nýtt, lánað og blátt – jafnvel í blómum.

Hvaða skreytingar stingur þú upp á fyrir athöfnina og veisluna, ef við viljum halda í náttúrulegan og einfaldan stíl?

Það er svo mismunandi hvað hver brúðhjón vilja, en parktískar og sem náttúrulegastar yrðu fyrir valinu hjá mér. Kannski eitthvað eins og veggurinn hjá mér í lokaverkefninu sem hægt er að útfæra á allskonar vegu.

Hvað er eitthvað sem þú vildir að fleiri vissu um blómaskreytingar? (Upplýsingar sem maður vissi ekki að maður vildi vita kannski)

Að þeim er hægt að aðlaga að hverjum og einum og það sé alltaf hægt að finna leið til þess að hafa blóm með í veislum, kveðjum og hversdagsleikanum.

Blóm setja einstakan svip á brúðkaupsdaginn og gera hann enn fallegri og persónulegri. Hvort sem þú ert að leita að klassískum, fíngerðum eða vistvænum skreytingum, þá er alltaf hægt að finna lausnir sem passa við þinn stíl og þína sýn.

Elísa hefur auga fyrir smáatriðum og brennandi áhuga á að skapa fallegar, vandaðar og persónulegar skreytingar fyrir brúðkaup. Frá og með 1. febrúar tekur Elísa að sér öll blómatengd verkefni, þar á meðal brúðarvendi og brúðkaupsskreytingar 🌿💐

Ef þú ert að skipuleggja brúðkaup og vilt fá sérsniðnar skreytingar sem passa við þinn stíl, þá geturðu haft samband við hana í gegnum @svolustra á Instagram. „Ég hlakka til í að heyra í þér sem er að lesa þetta með þína hugmynd af blómum. Alltaf velkomin að spjalla á gramminu,“ segir Elísa að lokum.

Ég hvet þig til að fylgja Elísu á gramminu, þó það sé ekki nema til að fá aðeins meiri blóm og liti í hversdaginn 🌸

Þangað til næst,
Gunnhildur Lind

Previous
Previous

Sýnileiki á samfélagsmiðlum – Það þarf ekki að pósta daglega

Next
Next

Janúar recap – hvað er að frétta?