Fyrsta haustlægðin
Ég held við getum öll verið sammála um það að fyrsta haustlægðin með tilheyrandi gulri viðvörum, fljúgandi sumardóti frá nágrönnum (það var sundlaug sem fauk niður eina götuna hérna í Borgarnesi um helgina 🏊♀️) og rigningu, sé komin og farin. Við erum officially komin yfir í nýja árstíð, haustið. Sem þýðir, sjáumst á næsta ári íslenskt sumar.
Það er alveg smá þung tilhugsun að bíða í ár eftir íslensku sumri, íslenskt sumar er einfaldlega best. Það var alveg smá lægð í mér um helgina. Ég djóka oft með það að þegar ég er eitthvað illa til höfð, stuttur þráðurinn, ekkert sérstaklega skemmtileg þann daginn, þá er ég bara heima hjá mér. Staðan var þannig um helgina. Eins oft og ég „valhoppa“ um götur Borgarness (ein mjög sniðug frænka lýsti mér þannig einu sinni) þá valhoppaði ég ekki eitt valhopp um helgina. Í staðinn labbaði ég þungum skrefum… djók. Ég var bara mjög meðvituð um það að sumarið væri búið, að haustið væri komið og að veturinn væri að nálgast. Ég ætla að giska að við vorum mörg sem vorum í lægð um helgina.
En við búum á Íslandi og svona er þetta. Það er samt pínu fyndið hvað maður er alltaf jafn óundirbúinn hvert einasta ár fyrir fyrstu haustlægðinni. Ég sagði við góða vinkonu um helgina að ég ætlaði að gefa mér út sunnudaginn til að vorkenna mér, eftir það 👉 áfram gakk. Haustið er nefnilega líka einn fallegasti tími ársins. Birtan á þessum tíma getur t.d. verið alveg sérstaklega djúsí. Í staðinn fyrir að sólin sé fyrir ofan húsin okkar (eins og um hásumar) þá skín hún inn til okkar og býr til allskonar skugga og lýsingu heima OG hún er stöðugt að breytast. Hefuru tekið eftir þessu?
Þannig að, í staðinn fyrir að „valhoppa“ um götur Borgarness um helgina þá var ég mest heima í allskonar dundi. Ég t.d. bakaði, ég tók til á stöðum sem er aldrei tekið til á og enginn sér nema ég. Ég keypti mér fleiri en eitt skandinavísk innanhússtímarit, skoðaði þau, drakk kaffi, borðaði súkkulaði og lét mér dreyma um fallegt lítið timburhús með útsýni út á sjóinn, hús með gömlu viðargólfi sem brakar í með hverju skrefinu, hús með risastórum gömlum gluggum… Svo kveikti ég líka á kertum, horfði á gamla mynd með nammi í skál og baunapoppi í annarri skál. Það er alveg fullt hægt að gera inni í haustlægð.
Planið sem átti hins vegar að vera síðustu helgi var að bjóða upp á haustmyndatökur í Borgarnesi og Stykkishólmi en veðrið var ekki alveg að vinna með mér. Allar myndatökur helgarinnar frestuðust. Fjölskyldurnar mínar eflaust fegnar að fara ekki í fjölskyldumyndatöku í rigningu og roki – ekki beint afslappaðasta væbið fyrir myndatöku 😅 Þær sýndu mér fullan skilning og ég er að vonast til þess að ég nái að mynda þær á fallegum haustdegi áður en veturinn tekur við. Ég mun uppfæra dagsetningar og staðsetningar hér. Ég hef reyndar fengið einhverjar ábendingar um að skilaboðin eru ekki að skila sér í inboxið til mín, þannig ef þú sendir t.d. í síðustu viku og ert ekki búin að fá svar frá mér, þá endilega senda mér beint á gunnhildurlind@gmail.com eða þá skilaboð á Facebook síðunni minni.
Að lokum, ef þú varst í haustlægð líka (ert kannski ennþá í miðri lægð), þá ertu ekki ein. Við erum flest í einhvers konar lægð af og til og það er allt í lagi. Hún líður hjá.
Þangað til næst,
Gunnhildur