10 ástæður til að njóta haustsins

Uppáhalds árstíðin

Svona leit könnunin út í story á gramminu.

Í síðustu viku setti ég í story á Instagram reikningi Gunnhildar Lind Photography mjög óformlega könnun í loftið: Uppáhalds árstíðin?


Það kom mér á óvart að það var haustið sem fékk flest atkvæði (43 atkvæði). Vissulega einu meira atkvæði en sumarið (42 atkvæði) sem er alltaf vinsæl árstíð á Íslandi. Ég hélt nefnilega að sumarið yrði langvinsælasta svarið. Aldeilis ekki. Hér má sjá hvernig atkvæðin röðuðu sér niður á árstíðirnar (alls 116 sem tóku þátt! Vel gert 👏):


❄️ Vetur – 10 atkvæði
☀️ Sumar – 42 atkvæði
🌱 Vor – 21 atkvæði
🍂 Haust – 43 atkvæði


Í fyrsta lagi, takk þið sem tókuð þátt í þessari könnun. Mér þykir extra vænt um þegar fólk kommentar undir myndir, svara spurningum eða eru með í umræðunni. Oft líður mér eins og það sem ég set fram og birti á mínum miðlum eins og t.d. á Instagram eða hér á síðunni lendi í svartholi sem enginn sér nema ég. En mér þykir gaman að skrifa um það sem ég er forvitin um og þess vegna held ég áfram, algjör bónus ef fleiri hafa gaman af.

Út frá þessum niðurstöðum þá spurði ég: 🍂 Af hverju haustið? 🍂

Það komu mjög haustleg svör og ég get vel skilið af hverju haustið er uppáhalds árstíðin hjá mörgum. Kemur líka í ljós að við við erum mörg nokkuð lík hvernig við hugsum um hlutina og hvað það er sem lætur okkur líða vel. Að því sögðu, þá eru hér 10 ástæður til að njóta haustsins:

🌤️ Veðrið
Á þessum tíma er ekki of heitt en ekki endilega of kalt. Það er vel hægt að vera úti að njóta veðursins án þess að taka fram vetrarúlpuna svo lengi sem það er ekki haustlægð yfir landinu.


✍️ Rútína
Mörg svöruðu að rútínan væri það besta við haustið. Ég get ímyndað mér sérstaklega fyrir fjölskyldur að þessi tími sé kærkominn eftir sumarfíin. Á haustin byrja líka skólarnir svo það þarf ekki að hafa áhyggjur að finna upp á einhverju að gera hvern einasta dag fyrir krakkana.


🕯️ Kertaljós
Á haustin er orðið vel dimmt á kvöldin og tilvalið að kveikja á kertum heima og hafa það huggulegt.


🐑 Smalamennskur
Það er örugglega fátt sem segir jafn mikið haust og smalamennskur og réttir. Ég man alltaf eftir því þegar skólarnir voru nýbyrjaðir að krakkarnir úr sveitinni fengu alltaf frí til að fara í réttir í september. Ég dauðöfundaði þau því mig langaði með. Það var svo gaman í réttum (þau fáu skipti sem maður fékk að fara). Réttir eru vissulega góður haustboði og eitthvað til að hlakka til á hverju ári.


✨ Birtan
Á haustin er ennþá bjart á morgnana en dimmt á kvöldin (halló kertaljós). Það má reyndar deila um að það sé enn bjart á morgnana. Við sem förum kl. 6:00 á morgnana í Metabolic tókum eftir því í síðustu viku hvað það væri allt í einu orðið dimmt þegar við mættum í tíma. EN, fyrir þau sem vakna á eðlilegum tíma, segjum milli kl. 7:00 og 8:00, þá er vissulega enn bjart.


🥰 Kósí
Ég myndi segja að haustið gefur okkur meira leyfi til að hafa það kósí, að vera ekki alltaf endalaust að gera eitthvað eða fara eitthvað. Ekki nema fara undir teppi, upp í sófa, inn í stofu og aðeins að kúra. Það má á haustin (ég tala nú ekki um á veturna).


🥂 September
Septembermánuður er á haustin. „Og september er bestur,“ var eitt svarið. Ég reyndar tek undir þetta. September er einn af skemmtilegustu mánuðunum. Margar af mínum nánustu vinkonum eiga afmælisdag í september þannig september er mánuður mikilla hittinga og samveru og það þykir mér vænt um.


🍂 Litirnir
Allt í einu verður allt í kring litað gulum, grænum, appelsínugulum og brúnum litum. Á hverju ári virðast litirnir breytast allt í einu og yfirleitt er þetta lítill gluggi. Svo lengi sem það kemur ekki brjálað rok dag eftir dag, þá fáum við að njóta haustlitanna lengur.


🏀 Körfuboltinn hefst á ný
Körfuboltagellan í mér elskar haustin því þá byrjar körfuboltinn aftur. Þetta er hreinlega skemmtilegasti tími ársins og þannig er það bara. Áfram Skallagrímur! 💛💚


🌱 Nýtt upphaf
Haustið er að vissu leyti nýtt upphaf. Eftir sumarið með tilheyrandi ferðalögum og rútínuleysi (eðlilega) þá er örugglega kærkomið að setjast niður með ferska dagbók og/eða planara og setja sér markmið, eitthvað til að vinna að næstu vikur og mánuði.


Hvernig finnst þér þessi samantekt um haustið og allt það jákvæða sem fylgir árstíðinni? Ertu sammála þessum lista? Hefur eitthvað gleymst kannski í samantektinni? Ég hafði allavega mjög gaman af því að lesa svörin (ég elska þegar ég fæ svör við spurningum á Instagram). Eins miklum bömmer og ég var yfir því að sumarið var búið um þarsíðustu helgi að þá er ég eiginlega orðin spennt fyrir haustinu – en þú?


Þangað til næst,
Gunnhildur Lind

Previous
Previous

Viðtal: Hera Hlín förðunarfræðingur

Next
Next

Fyrsta haustlægðin