Viðtal: Hera Hlín förðunarfræðingur
Þau sem þekkja vel til mín vita að ég er stoltur Borgnesingur og vil ég nýta hvert tækifæri til að láta fleiri vita af metnaðarfullum og skemmtilegum Borgnesingum sem eru að gera það gott í sínu. Hún Hera Hlín Svansdóttir er einn slíkur Borgnesingur. Hera Hlín er menntaður förðunarfræðingur frá Makeup Studio Hörpu Kára og starfar í dag sem förðunarfræðingur m.a. sem sminka hjá Borgarleikhúsinu, nýlega sem sölufulltrúi NYX á Íslandi auk þess sem hún tekur að sér brúðarfarðanir.
Mér datt í hug að taka viðtal við Heru Hlín og spyrja hana sérstaklega út í brúðarfarðanir, eins og t.d. hvað er gott að hafa í huga þegar kemur að brúðarförðun, hvaða spurningar er gott fyrir verðandi brúðir að spyrja förðunarfræðinga og fleira í þeim dúr sem gæti komið að góðum notum í öllu skipulaginu þegar kemur að brúðkaupsdeginum.
Hvar lærðiru förðun? Af hverju að læra förðun? Og hvað hefuru verið að starfa lengi við að farða?
Það hafði lengi blundað í mér að skrá mig í förðunarnám en einhvernveginn lét ég aldrei verða að því fyrr en núna. Mér þótti gaman að gera mig til og þess háttar og gat tekið mér heilu klukkutímana í að dúlla mér að mála mig ef ég hafði tíma. Aftur á móti var ég alls ekki mikið í því að mála vinkonur mínar eða neitt þannig þar sem mér fannst ég ekki vera nógu örugg og vildi ekki bera ábyrgð á því ef þær væru ekki nógu ánægðar haha…
Ég ákvað að skrá mig í förðunarnám eftir margra ára draum þegar ég var í fæðingarorlofi með yngri strákinn minn. Ég fór í kvöldskólann í Makeup Studio Hörpu Kára og sé svo alls ekki eftir því! Ég útskrifaðist þaðan eftir 8 vikna diplómunám maí/júní 2022 og hef verið að vinna við það síðan. Til að byrja með voru þetta bara einstaka verkefni og farðanir en síðan fór boltinn að rúlla, tengslanetið varð stærra og verkefnin urði fleiri. September 2022 hóf ég að starfa sem sem sminka hjá Borgarleikhúsinu og er síðan nýlega tekin við sem sölufulltrúi NYX á Íslandi.
Hvenær farðaðiru fyrstu brúðina?
Fyrsta brúðarförðunin mín var núna 16. júní sl. Mér fannst það mjög stórt skref að taka að mér brúðarförðun og var ég alveg ágætlega stressuð fyrir því og er það líklegast ástæðan fyrir því að ég byrjaði ekki að taka að mér brúðarfarðanir fyrr en ári eftir útskrift. Ég vildi öðlast aðeins meiri reynslu áður en ég færi að taka að mér svona stórt verkefni. Aftur á móti bíð ég öllum að koma í prufuförðun fyrir brúðkaupið og fannst mér það taka stóran bita af stressinu. Þar fæ ég tækifæri til að spyrja brúðirnar hvað það er sem þær eru að leitast eftir, hvort þær séu með ofnæmi fyrir einhverju og þess háttar. Prufuförðunin er einnig mikilvæg fyrir brúðina til þess að spyrja um allt sem henni dettur í hug, koma með allar sína hugmyndir og óskir og þar vinnum við saman að lausn sem hentar hverri og einni.
Hvað er skemmtilegast við að farða og þá sérstakeglega brúðarförðun?
Það sem veitir mér mestu ánægjuna er að sjá ánægða kúnna og það að vera treyst til þess að farða brúði á stóra daginn sinn er svo dýrmætt! Auðvitað er það ákveðin pressa að sjá til þess að brúðurin sé fín allan daginn en á sama tíma svo geggjað að fá að taka þátt í þessum degi með þeim.
Hvenær myndirðu ráðleggja verðandi brúðum að bóka förðunarfræðing fyrir brúðkaupsdaginn sinn?
Það er alveg sniðugt að fara að skoða förðunarfræðinga og þess háttar þegar búið er að negla niður dagsetningu á brúðkaupinu. Margir förðunarfræðingar sem taka að sér brúðarfarðanir eru tilbúnir til þess að taka daginn frá með margra mánaða fyrirvara og því myndi ég segja að bóka fyrr en seinna áður en einhver annar bókar á undan!
Prufuförðunin er mikilvæg fyrir brúðina til þess að spyrja um allt sem henni dettur í hug, koma með allar sína hugmyndir og óskir og þar vinnum við saman að lausn sem hentar hverri og einni.
Hvaða spurningar myndiru mæla með að verðandi brúðir spyrji förðunarfræðinga í ferlinu þegar þær eru að leita af förðunarfræðing fyrir daginn sinn?
Til að byrja með bara hvort hún taki að sér brúðarfarðanir höfuð og hvort hún sé laus haha! En annars bara ef það er eitthvað sérstakt sem hún er með í huga. Ég persónulega myndi helst vilja vita allt sem brúðurin er að hugsa. Það er að segja hvernig förðun hún er að leitast eftir, hvort það sé eitthvað sem hún er stressuð fyrir tengt förðuninni, eitthvað sem hún vill alls ekki og hvernig henni líkar best við að vera máluð. Ég byrja alltaf á að spyrja hvort þær séu með eitthvað sérstakt í huga, hvort þær séu með ofnæmi fyrir einhverju og hvort þær hafi farið í förðun áður, hvað þeim líkaði þá og hvað hefði mátt betur fara.
Hversu snemma fyrir athöfn/myndatöku myndirðu ráðleggja að byrja farða?
Ég myndi alltaf mæla með að stefna á að vera tilbúin svona klukkutíma fyrir myndatöku/athöfn. Líka bara til þess að vera ekki í neinu stress ef eitthvað skyldi koma uppá. Ég gef með 1,5 klst í brúðarförðun þar sem ég legg mikla áherslu á góðan grunn, smá dekur og vandvirkni og vil því ekki vera í stressi eða flýta mér. Það er stór dagur framundan og finnst mér mikilvægt að brúður geti sest í stólinn hjá mér og slakað aðeins á. Það er síðan algengt að setja þurfi farða niður á bringu og/eða bak og vil ég ná að gera það eftir að hún er komin í dressið. Síðan er það skartið, skórnir, veskið og allt sem fylgir því. Blómvöndurinn auðvitað líka og síðast en ekki síst að koma sér í athöfnina eða á myndatökustaðinn.
Hvað getur einn förðunarfræðingur farðað marga fyrir brúðkaup?
Brúðurin er auðvitað aðalatriðið þennan daginn og á allan forgang og skipulegg ég daginn í kringum hana. Það er að segja hvenær hún þarf að vera tilbúin (förðun og hár) og hvenær athöfnin byrjar eða myndatakan. Ég myndi segja að ef tími leyfir og dagurinn er vel skipulagður að þá ætti einn förðunarfræðingur að geta tekið svona ca. 2-4 í förðun aukalega. Það er alveg keyrsla en á sama tíma svo ótrúlega skemmtilegt og oft væri ég til í að geta farðað svo miklu fleiri.
Hvað er verðið fyrir brúðarförðun?
Ég er að taka 35.000 kr. fyrir brúðarförðun. Í því er prufuförðun innifalin og augnhár. Eins og ég sagði hér fyrir ofan þá er prufuförðunin gríðarlega mikilvæg þar sem brúðurin fær tækifæri á að koma öllum sínum hugmyndum og skoðunum á framfæri. Ég reikna yfirleitt með svona 1-2 klst í prufuförðun þar sem það er margt sem þarf að ræða, prófa og komast að sameiginlegri niðurstöðu sem hentar hverri og einni. Einnig er vert að taka fram að það er ekki bara förðunin sem kostar heldur líka er förðunarfræðingurinn að taka dag frá fyrir brúðkaupið oft með margra mánaða fyrirvara og lofa sér í þetta verkefni.
Þarf brúðurin að eiga einhvern farða sjálf eða kaupa eitthvað í samráði við förðunarfræðing?
Ég fæ reglulega þessa spurningu og svarið mitt er yfirleitt að þær þurfi ekki að koma með neitt sérstakt nema það sé mögulega gott fyrir þær að eiga varalitinn eða glossið sem þær vilja vera með ef þær vilja geta bætt á það yfir daginn. Glært púður er líka mjög sniðugt að eiga og hafa í veskinu þar sem það er algengt að fólk fari að „glansa“ með deginum. Annars þarf ekki að eiga farða eða neitt mín vegna þar sem ég hef með tímanum sankað að mér allskonar vörum, svo í lang flestum tilfellum ætti ég að geta fundið eitthvað sem hentar öllum. Það væri ekki nema ef brúðurin væri með ofnæmi fyrir einhverju og ætti farða sem hún vill einungis nota, þá er það í góðu lagi. Annað sem ég vil koma á framfari er að ef brúðurin á ekki varalit/gloss/púður sem verður fyrir valinu þá get ég boðið þeim að fá smá af vörunni í ílát til þess að taka með sér út í daginn :)
Það gæti verið gott fyrir brúðir að eiga varalitinn eða glossið sem þær vilja vera með ef þær vilja geta bætt á það yfir daginn. Glært púður er líka mjög sniðugt að eiga og hafa í veskinu þar sem það er algengt að fólk fari að „glansa“ með deginum.
Eitthvað sem þér finnst mikilvægt að brúðir vita?
Mér finnst alltaf sniðugt að nefna við brúður að koma í prufu förðun klædd í efri hluta sem er svipaður á litinn og brúðardressið og gera hárið semí fínt. Ég mæli ekki með að brúðurin fari í plokkun og litun á augabrúnum stuttu fyrir brúðkaupið, leyfa kannski svona 3-5 dögum að líða á milli. Ekki setja of mikla brúnku í andlitið (jafnvel sleppa andlitinu bara) og ekki prófa einhverjar nýjar snyrtivörur rétt fyrir brúðkaupið.
Hægt er að fylgjast með mér og vinnunni minni á Instagram reikningi mínum byherahlin eða www.byherahlin.com. Ekki hika við að senda á mig línu ef það er eitthvað <3
Hvernig fannst þér viðtalið við Heru Hlín? Var eitthvað sem kom á óvart? Jafnvel einhverjir nýir vinklar þegar kemur að því að bóka brúðarförðun sem þú hafðir ekkert spáð í? Væri gaman að heyra frá þér á Instagram! Ég sjálf lærði allavega fullt eftir að hafa heyrt hennar sjónarhorn og mun klárlega hafa þessar upplýsingar á bakvið eyrun þegar ég gifti mig einn daginn.
Þangað til næst,
Gunnhildur Lind