Þegar við Palli frændi fórum til Köben

Palli frændi

Nú er ca. ár síðan ég og Palli frændi fórum í helgarferð til Kaupmannahafnar. Palli hafði verið að nefna það í langan tíma að vilja fara til Kaupmannahafnar aftur. Á einhverjum tímapunkti í fyrra greip ég tækifærið næst þegar hann nefndi Kaupmannahöfn og hreinlega bókaði flugmiða fyrir okkur strax svo úr þessu yrði og svo að ég þyrfti ekki að heyra einu sinni enn hvað það væri nú gaman að fara til Kaupmannahafnar. Það ER gaman að fara til Kaupmannahafnar. Við græjuðum miðana og skelltum okkur til Köben í lok september í fyrra.

Þau sem ekki þekkja til þá er Palli eldri bróðir pabba. Hann hefur alltaf verið kallaður Palli frændi og er hálfþekktur sem Palli frændi hér í Borgarnesi, enda er hann Palli frændi. Ferðin var skemmtileg hjá okkur. Við hittum frænda okkar hann Odd og svo annan frænda, Elías, sem búa báðir í Köben. Við Palli vorum mest að rölta um borgina, njóta og skoða okkur um. Engin sérstök plön, þannig séð, nema hitta nokkra ættingja.

Fyrir áhugasama þá er hægt að horfa á vídjóklippur frá ferðinni okkar inn á Instagramminu mínu í highlights þar sem stendur „Palli x DK“. Við Palli heimsækjum oft á þessar klippur. Ég var líka dugleg að taka myndir í ferðinni (fyrst og fremst af Palla). Það er gaman að taka myndir af honum því hann veitir mér enga athygli, er með enga tilgerð. Hann er nákvæmlega eins og hann er og það skiptir engu máli hvort ég sé með myndavél á lofti eða ekki. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir af Palla að vera Palli í Kaupmannahöfn:

Það er aldrei að vita nema við Palli frændi skellum okkur til Köben á næsta ári, þá verður hann 80 ára.

Þangað til næst,
Gunnhildur Lind

Previous
Previous

„Okkur langar í myndir sem eru ekki of uppstilltar“

Next
Next

Viðtal: Hera Hlín förðunarfræðingur