„Okkur langar í myndir sem eru ekki of uppstilltar“
Oft þegar ég fæ fyrirspurnir um myndatökur þá fylgir þessi setning gjarnan með. „Okkur langar í myndir sem eru ekki of uppstilltar.“ Ég skil nákvæmlega hvað er verið að meina og ég meira að segja markaðset mig þannig að ég legg áherslu á að ná myndum sem eru ekki of uppstilltar. En hvernig er hægt að ná EKKI uppstilltum myndum þegar fjölskylda mætir í myndatöku eingöngu í þeim tilgangi að fá fallegar myndir af sér og sínum. Þetta er í rauninni algjör mótsögn, við erum hér í myndatöku en við viljum samt ekki að myndirnar lúkki eins og við séum í myndatöku 😅
Ég segi að það verður alltaf að vera einhver uppstilling. Það sem ég nota hins vegar til að ná þessum „óuppstilltu“ myndum er húmor, leikur og spjall. Húmor er eitt það besta sem til er og það að hafa húmor fyrir sjálfum sér geggjaður styrkleiki. Með húmor er hægt að létta andrúmsloftið, hlæja og aðeins gera grín að aðstæðum. Ég meina, það er ekki eins og við séum alltaf í myndatökum – kannski einu sinni á ári? Varla það. Ég segi t.d. oft við fjölskyldurnar mínar, eftir að ég hef stillt öllum. „Svo megið þið láta eins og ykkur þykir vænt um hvort annað.“ Undantekningalaust slaka öll á, hlæja smá, og taka aðeins meira utan um hvort annað því auðvitað þykir öllum vænt um hvort annað (ég vona það allavega).
Annað dæmi er þegar ég fæ fjölskyldur til að rölta aðeins hingað eða þangað, þá segi ég. „Svo látið þið eins og ég sé ekki hér,“ þá förum við yfirleitt öll að hlæja þar sem ég er vissulega þarna, með myndavél, bakvið tré eða strá í allskonar krjúpandi stellingum eins og ekkert sé eðlilegra. Það eru þessi örmóment inn á milli, þegar ég fæ fjölskyldur aðeins út úr hausnum og inn í mómentið, sem ég næ þessum „óuppstilltu“ myndum.
Þegar fjölskyldur koma með lítil börn, þá segi ég foreldrum og jafnvel eldri systkinum að spjalla við þau yngstu. Það eru yfirleitt einlæg móment sem eiga sér stað á milli foreldra og barna einfaldlega með smá spjalli (þetta þarf ekki að vera flóknara en það). Svo hefur verið mikið sport þegar ég spyr hvar nebbinn á pabba eða eyrað á mömmu er, þá koma oft skemmtilegir einbeitingasvipir og svo gleðisvipurinn þegar nebbinn og eyrað er loksins fundið. Þegar börn eru aðeins eldri, þá fæ ég þau oft til að hlaupa t.d. frá mér og til mömmu og pabba eða öfugt. Það yfirleitt hjálpar að hafa smá action fyrir eldri börnin inn á milli. Ég skil þau vel að vilja ekki vera kjur of lengi.
Þetta eru örfá dæmi um það hvernig hægt er að ná „óuppstilltum“ myndum í myndatökum og eitthvað sem ég hef tileynkað mér með reynslu og fjölda myndatakna – er enn að læra! Fyrir fjölskyldur er líka gott að minna sig á að það er fullkomlega eðlilegt að vera pínu stressuð fyrir myndatöku. Fyrir mitt leyti, þá er ég yfirleitt stressuð fyrir einhverju sem ég geri ekki reglulega. Ég myndi segja að fyrir flesta falli myndatökur þar undir. Ég hugsa að um leið og maður samþykki það, að maður er ekkert alltaf í myndatökum og af hverju ætti maður þá bara allt í einu að vera með’etta, dettur pressan niður. Frekar að koma í myndatökuna með það hugarfar að hafa gaman og reyna að gera sitt besta í ókunnugum aðstæðum.
Ég vona að þessar upplýsingar hjálpa fyrir næstu fjölskyldumyndatöku með von um að ná aðeins fleiri „óuppstilltum“ myndum.
Þangað til næst,
Gunnhildur Lind