Myndatökustaðir í Borgarnesi

Mér datt í hug að taka saman þá staði sem ég hef verið að sækjast í og stinga upp á til að hafa myndatökur þetta árið. Ég sé að ég er mikið á sömu stöðunum, kemur kannski ekki á óvart enda fallegir staðir. Svo eru staðir sem ég væri til í að prófa meira af og sumir staðir hreinlega gleymast. Það er allavega úr nógu að velja í Borgarnesi. Hér kemur samantekt.

 

Englendingavík

Í Englendingavík í Borgarnesi hef ég verið með margar, margar myndatökur. Ég elska þennan stað og finn mig alltaf vera stinga upp á þessum stað fyrir myndatökur í Borgarnesi. Þarna er yfirleitt logn á rok degi (í hagstæðri vindátt) og auðvelt aðgengi fyrir alla. Það er auðvelt að leggja bílnum og auðvelt að ganga niður að víkinni og taka myndir við sjóinn, á gömlu steinbreyggjunni, við klettana eða finna nokkur strá fyrir strá væbið 🌾

Úr sitthvorri fermingarmyndatökunni sem báðar voru í Englendingavík í vor. Annars vegar Adam með klettana í bakgrunni og svo Embla til hægri í strá/gulu grösunum.

 

Skógræktin við Garðavík og Bjargsland

Hér hef ég margoft verið með myndatökur, bæði fjölskyldu, fermingar og brúðkaup. Eins og Englendingavíkin þá býður þessi staðsetning upp á fjölbreytni í myndunum. Hér erum við með tré, heilan skóg, strá, fjöll og meira að segja burstabæ. Hér er líka gott aðgengi og stutt að rölta aðeins frá bílunum til að sækja nokkrar myndir af sér og sínum. Það er líka áhugavert að sjá litabreytinguna á milli árstíða. Myndirnar tvær fyrir miðju eru úr fermingarmyndatöku í mars fyrr á þessu ári.

Fjölskyldumyndataka

Frá fjölskyldumyndatöku í sumar þegar allt er í blóma.

Brúðkaupsljósmyndari

Myndataka af júlíbrúðhjónum í sumar.

 

Planið á bakvið Brákina

Hér hef ég bara einu sinni myndað en marg oft labbað þarna framhjá og hugsað að þetta væri góður myndatökustaður. Það var svo í sumar þegar Íris og Davíð giftu sig að mér datt þessi staður í hug til að ná góðum myndum af þeim með brúðarbílnum. Þarna er nóg pláss fyrir bíl og brúðhjón og svo skemmir ekki að hafa Borgarfjörðinn og Hafnarfjallið þarna bakvið. Brákin er s.s. listaverkið upp á hæðinni fyrir ofan Landnámssetrið (fyrir þau sem ekki þekkja til).

Brúðkaupsljósmyndari

Íris og Davíð nýgift í sumar.

 

Borg á Mýrum

Það er alltaf extra gaman að fá að taka myndir á Borg á Mýrum. Þegar það kemur fyrir þá er yfirleitt um brúðkaup að ræða (ég man allavega ekki eftir að hafa tekið myndir fyrir önnur tilefni). Ég hef verið svo heppin að mynda brúðkauð á Borg í vetur/vor, sumar og haust, allt á þessu ár! Svo eru meira að segja nokkur vetrar brúðkaup framundan. Ég elska þessa þróun og vona að það verða ennþá fleiri brúðkaup á Borg á næsta ári. Efri myndirnar tvær eru af aprílbrúðhjónum og neðri myndirnar tvær eru af júníbrúðhjónum. Báðir mánuðir með sinn sjarma og gaman að sjá t.d. mismunandi liti á milli mánaða. Mér finnst líka svo skemmtilegt sjónarhorn á Borgarnes og Hafnarfjall frá Borg.

Myndirnar tvær fyrir ofan eru frá aprílbrúðkaupi á Borg og myndirnar tvær fyrir neðan eru frá júníbrúðkaupi. Allt öðruvísi litir á milli mánaða en báðir með sinn sjarma.

 

Kjartansgatan

Hér hef ég líka marg oft labbað en sjaldan verið með myndatökur. Í fermingarmyndatöku vertíðinni í vor stakk ég upp á þessum stað því þarna var gott skjól (á rokdegi). Þarna var líka að finna strá væb, sjó og svo var bílskúrsveggur sem ég nýtti eins og bakgrunn í stúdíói (sjá svart/hvítu myndina).

 

Botninn í Þórðargötunni

Ég hugsa að þetta sé staður sem ekki margir vita af, ekki einu sinni allir Borgnesingar. Þetta er hálfgerð leyniperla og alltaf gaman að labba þarna í gegn og/eða setjast á bekkinn og leyfa sér aðeins að vera. Það þarf ekki alltaf að vera drífa sig – er það nokkuð? Þegar ég renn yfir árið þá sýnist mér ég bara hafa verið einu sinni með myndatöku á þessum stað. Svosem engin sérstök ástæða fyrir því, ekki nema að ég hafi hreinlega gleymt þessum stað. Þetta er tilvalinn staður fyrir brúðkaup og fjölskyldur. Þarna er smá opið svæði, þarna eru allskonar tré, sjór, bekkur til að setjast á og gott næði. Það er vel hægt að taka fallegar myndir þarna og ég tala nú ekki um í haustlitunum eins og hér af Viktori og Jóhönnu núna í september.

 

Fjaran á móti lögreglustöðinni

Mér hefur alltaf langað til að taka fleiri myndir í þessari fjöru. Þetta er töff staðsetning með svörtum sandi, sjó og Hafnarfjallið blasir við (svo lengi sem það er ekki lágskýjað 😅). Það var því miður fyllt upp í hluta þarna vegna sandfoks svo aðgengi niður í fjöruna er ekkert sérstakt. Það þarf smá príl og hentar því ekki öllum. Ég fékk hins vegar að nýta þennan stað fyrir eina portrait myndatöku í sumar.

Einstaklingsmyndataka

Frá portrait myndatöku með Sonju Lind (frænku) í fjörunni á móti lögreglustöðinni.

 

Skallagrímsgarður

Ég hef ekki mikið verið að stinga upp á Skallagrímsgarðinum fyrir myndatökur í ár. Líklega hefur mig langað til að breyta til eftir að hafa verið með flestar myndatökur eingöngu í Skallagrímsgarði fyrst þegar ég var að byrja að taka myndir. Skallagrímsgarðurinn hentar samt vel fyrir myndatökur, sérkstalega þegar allt er í blóma (júní – september). Auðvelt aðgengi fyrir alla og nóg pláss fyrir krakkana að hlaupa aðeins.

Frá myndatöku í Skallagrímsgarði í sumar af systkinabörnum.

 

Fjaran á bakvið Mávaklett

Þetta er geggjaður staður sem ég gleymi alltof oft. Hef bara verið með eina myndatöku þarna í ár. Var með nokkrar fjölskyldumyndatökur þarna fyrir tveimur árum (minnir mig). Þetta er fjölbreyttur staður því þarna er fjara, klettar, sjór, fjall í bakrunni en líka hægt að fara í gróður og finna nokkur tré + þarna er gott næði. Það var líka æði að taka myndir þegar lúpínurnar voru í blóma eins og hér af Öldu í fermingarmyndatöku í sumar. Það er eitthvað sem ég væri til í að gera meira af á næsta ári – lúpínu fjölskyldumyndataka?

 

Það eru eflaust fullt af fleiri stöðum í og við Borgarnes til að taka myndir. Staðir eins og Seleyri, Hafnarskógur eða Einkunnir, þetta eru allt staðir sem vel væri hægt að taka myndir á og fínt að hafa á location-listanum hjá sér. Svo er líka gott að hafa bakvið eyrað hvaða tíma árs maður er að skipuleggja myndatöku. Ég myndi t.d. ekki mæla með Skallagrímsgarði á veturna/vorin því þá er ekkert í gangi þar nema berar trjágreinar og frekar mæla með fjöru, klettum og stráum.

Þangað til næst,
Gunnhildur Lind

Previous
Previous

Í hverju er best að vera?

Next
Next

„Okkur langar í myndir sem eru ekki of uppstilltar“