Í hverju er best að vera?
Einmitt, í hverju er eiginlega best að vera? Þessi spurning býður upp á allskonar svör, fer eftir því hver er spurður. Ég ætla að svara þessu frá mínu hjarta og þá sérstaklega með fjölskyldumyndatökur í huga. Auðvitað er smekkur fólks mismunandi og minn smekkur ekki allra. Hafandi sagt það, þá tekur þú það sem gagnast þér, hendir rest í burtu 🤝
Veldu þægileg föt
Í fyrsta lagi er aðalatriðið að vera í þægilegum fötum, einhverju sem þér líður vel í. Um leið og maður er komin í eitthvað óþægilegt þá yfirleitt sést það í myndunum. Það er nóg og óþægilegt að vera í myndatöku, hvað þá að vera í óþægilegri flík ofan á það. Ég held við tengjum öll við það að eiga uppáhalds buxur, eða uppáhalds peysu, það er fínt að byrja þar. Þá er næsta pælingin sú að það er líka gott að vera í einhverju sem fer þér vel. Ef það fer þér vel, þá myndastu vel (allavega aðeins betur).
Hvernig vitum við hvað fer okkur vel? Besta vísbendingin sem þú færð er að hlusta á hrósin. Ef ég tek dæmi úr mínu lífi – ég held ég fái t.d. alltaf hrós þegar ég fer í græna kjólinn minn. Eða í sumar þegar ég var að velja mér kjól fyrir brúðkaup hjá góðri vinkonu, þá sendi ég á nokkrar vinkonur myndir af mér í mismunandi kjólum og í mismunandi litum til að fá aðstoð við valið (eðlilega brúðkaup áratugsins!). Þá sagði ein, ég veit ekki hvað það er við bláan lit og þig, en hann fer þér fáránlega vel. Svo þarna eru tvær vísbendingar fyrir hvað fer mér vel, grænn og blár litur.
Haustlitir í fatavali úr stórfjölskyldumyndatöku. Smellpössuðu í myndatöku umhverfið.
Allt sem ég á er asnalegt
Ef þú ert alveg tóm í hausnum, veist ekkert hvar þú átt að byrja. Þér finnst kannski allt asnalegt, langt síðan þú keyptir þér ný föt og allt er eitthvað blah – ég hef líka verið þarna og skil 100p tilfinninguna. Þá er sniðugt að skoða í kringum sig og reyna að spotta þegar maður hugsar „þetta er töff“ eða „þetta væri smart“. Ef þau geta verið smart, þá getur þú verið smart. Þú getur farið inn á Pinterest og fengið innblástur þar. Þú getur skoðað Instagram líka, fengið innblástur þar. Það er til svo endalaust af smart fólki að þú þarft liggur við að hafa fyrir því að fá EKKI innblástur.
Setningar til að skrifa inn í Pinterest (þú færð mest út úr því ef skrifað er á ensku)
Family Photo Outfits (svo hægt að bæta við árstíðunum; winter, spring, summer og fall).
Minimal Outfit Ideas Family
Lifestyle Family Photography
Outdoor Family Session
Siblings Photos
Family Outfits For Pictures
Svona er hægt að leika sér endalaust með setningarnar, raða orðunum í mismunandi röð og sjá hvað kemur upp. Pinterest er algjör snilld til að fá hugmyndir, get ekki mælt nóg og mikið með því appi – og það er frítt!
Í lokin, þá þarf þetta ekki að vera flókið. Að velja outfit fyrir myndatökur getur verið eins einföld samsetning og uppáhalds gallabuxurnar þínar + hvítur bolur. Ég mæli sterklega með því að hafa fötin í heilum/einum lit frekar en einhverju mynstruðu eða með lógói/mynd á og ég mæli með jarðtónum yfir æpandi skæra liti þegar verið er að velja föt í myndatökur. Nú er ég kannski farin að flækja þetta? Hætti hér.
Þangað til næst,
Gunnhildur