Takk fyrir 2023 – Hæ 2024 👋

Gunnhildur Lind ljósmyndari

2023 hefur verið heilt yfir gott, gefandi og viðburðaríkt ár. Stærsta árið hingað til síðan ég byrjaði að bjóða upp á ljósmyndaþjónustu haustið 2017. Þegar ég lít yfir dagatalið síðustu tólf mánuði þá verð ég eiginlega hissa hvað ég tók margar myndir, hitti mikið af fólki, náði að gera mikið en líka á sama tíma, hvað ég náði að gera mikið af engu, þ.e. dagar með engum plönum sem ég passa vel upp á að skipuleggja inn á milli myndatökutarna til þess einmitt að ég geti gefið mig alla í myndatökurnar.

Það er bara tími fyrir allt þetta? Samt, þegar ég hugsa til baka síðasta árið, þá finnst mér ég eiga helling inni. Það er geggjað og eingöngu tilhlökkunartilfinning sem fylgir þeirri tilhugsun.

Tækifæri til að gera enn betur

Þó að margt sé gott og muuun betra en það var fyrir til dæmis fimm árum þegar ég var rétt að byrja, að þá sé ég fullt af tækifærum til að gera betur, uppfærslur í ýmsum hornum sem hægt er að innleiða, gera hluti enn skilvirkari, búa til betri kerfi, hafa flest (fyrst og fremst tengt ljósmynduninni) í solid verkferlum til að fá sem mest út úr tímanum mínum. Hversu fyndið er líka að vera orðin týpan sem notar orð eins og skilvirkni, innleiðing og verkferlar?! Mér finnst eiginlega mega smart að vera orðin þessi týpa því fyrir mér er þetta ekki hobbý. Þetta er vinnan mín og ég vil bjóða upp á frábæra þjónustu og upplifun í minni heimabyggð og landshluta. Ég vil að þetta gangi vel og á sama tíma vil ég líka geta lifað því lífi sem ég sé fyrir mér.

Með hverju árinu þá verður ljósmyndareksturinn alltaf aðeins meira batterí að halda utan um og ég finn að til að allt gangi vel og til að bjóða upp á frábæra þjónustu og upplifun í myndatökum að þá er það á mína ábyrgð að gera hluti einmitt skilvirkari, innleiða nýja tækni eins og AI og búa til skothelda verkferla í kringum t.d. hvað á að gera eftir myndatökur til að fá sem mest út úr tímanum. Það er nefnilega bara ég í þessu.

Ég svara öllum póstum. Ég skipulegg allar myndatökur í samvinnu við mínar fjölskyldur, verðandi brúðhjón og fyrirtæki. Ég keyri á milli staða. Ég sit fyrir framan YouTube klukkustundunum saman að kenna mér eitt og annað. Þetta eru ekki bara vídjó tengd ljósmyndun, heldur líka hvernig á að reka fyrirtæki, hvernig á að markaðssetja sig, hvernig á að búa til nýja heimasíðu, hvernig virkar SEO og fleira mætti telja upp. Þess vegna er algjört lykilatriði fyrir mér að fá sem mest út úr tímanum mínum. Með því að pæla í öllu þessu sem ég taldi hér á undan að þá er þetta hægt + ég fæ frelsið til að gera það sem ég vil gera, stjórna hvernig ég ver mínum tíma, sem var og verður alltaf kjarna ástæðan fyrir því að ég vel að starfa sjálfstætt.

Borgarnes á Vesturlandi

Borgarnes í vetrarbúningi milli jóla og nýárs.

Takk öll fyrir myndatökurnar, samstarfið, traustið og peppið á árinu sem er að líða, ég væri ekki hér án ykkar. Ég fer full tilhlökkunar inn í nýtt ár. Koma svo 2024!

Áramótakveðja,
Gunnhildur Lind

Previous
Previous

Það sem ég lærði á síðasta ári

Next
Next

Í hverju er best að vera?