Það sem ég lærði á síðasta ári
Þá er komið árið 2024 – Ég sit hérna fyrir framan tölvuna heima í litla sæta eldhúsinu mína að finna orð, eitthvað til að skrifa. Alltaf kemur nýtt ár á eftir öðru.
2023 var mjög gott ár hjá mér, mjög vaxandi ár. Mér líður eins og ég hafi uppgötvað allskonar. Eins og það að hversdagsleikinn er málið. Ef maður getur notið sín í hversdagsleikanum þá er lífið bara nokkuð skemmtilegt. Til dæmis að hlakka til fyrsta kaffibollans, að finna fyrir hlýju frá sólinni í andlitinu, að horfa á litina í himninum. Allt þetta kostar ekki krónu (nema kannski kaffið). Ég geri mér fulla grein fyrir hvernig þetta hljómar. Mjög klobbalega hefði ég líklega sagt tuttugu og eitthvað ára gömul og liggur við eina sem maður spáði í var. „Hvenær fæ ég að sofa út næst?“ Það er eitthvað við það að eldast að maður áttar sig á hvað raunverulega skiptir máli eins og t.d. góð heilsa og að hafa gott fólk í kringum sig. Það tvennt er fjarri því að vera sjálfsagt og eitthvað sem þarf að rækta og sinna.
Ég fór inn í árið 2023 með þema orðið „Vibrant“ (e. full of energy and life). Sótti þar innblástur frá Jenna Kutcher í The Goal Digger Podcast. Hún er alltaf með þema orð fyrir hvert ár. Mér fannst þetta sniðugt og ákvað að orðið mitt yrði „Vibrant“ fyrir árið 2023. Eftir á að hyggja hafa margar ákvarðanir litast af þessu þema orði sem ég auðvitað skrifaði á spegilinn inn á baði heima með eyeliner svo ég myndi sjá það á hverjum degi. Þessi pæling, að lifa lífinu full af orku og lífi, var þess vegna alltaf efst í huganum, í undirmeðvitundinni.
Í janúar 2023 byrjaði ég á að skrá mig í Alvöru Matur og Gæðasvefn hjá Indíönu Nönnu. Þá var ég fyrst og fremst forvitin að læra hvernig matur og næring getur gefið manni meiri orku og þar af leiðandi betri vellíðan heilt yfir. Eitt af því fyrsta sem maður gerir á námskeiðinu er að svara nokkrum spurningum eins og þessari. „Hverjar eru þínar væntingar (langanir) á þessu námskeiði?“ Ég gróf upp gamalt email með svarinu mínu til Indíönu:
„Þema orðið mitt fyrir 2023 er „Vibrant“ (e. full of energy and life). Ég valdi þetta orð því mér fannst ég oft svo þreytt árið 2022 og engin ástæða til, þannig séð. Ég veit allavega að ég á helling inni til að gera betur og mig langar að gera betur. Ég tel mig borða t.d. alltof lítið miðað við hversu mikið ég hreyfi mig og sömuleiðis er ég ekki að borða nóg og innihaldsríka og orkugefandi fæðu.“
Þetta var fjárfesting sem ég mun aldrei sjá eftir og góð byrjun á árinu og sömuleiðis góður grunnur því seinna á árinu uppgötvaði ég The Glucose Goddess sem undirstrikaði allt þetta sem Indíana var að kenna á námskeiðinu sínu í janúar. Fyrir árið 2024 er ég t.d. asnalega spennt að prófa leiðir til jafna blóðsykurinn, þ.e. að minnka sveiflurnar á honum með þeim tipsum og trixum sem hún er að kenna á sínum miðlum og sjá muninn á mér. Ég er nú þegar búin að hlusta á bókina hennar Glucose Revolution: The Life-Changing Power of Balancing Your Blood Sugar og skrá mig í uppskriftar klúbbinn hennar The Recipe Club. Ég er all in sýnist mér 😅 (mér finnst þetta bara svo ótrúlega áhugavert. Hversu kúl að líðan okkar er bókstaflega í okkar höndum og lituð út frá því hvernig við lifum lífinu okkar; hvað við borðum, hvernig og hvort við hreyfum okkur OG hvernig við tölum til okkar). Ég er strax farin að sjá breytingar en er eiginlega spenntust að sjá langtíma ávinninginn. Svo ég bíð spennt eftir að sjá hvernig staðan verður í sumar og svo í lok árs. Þangað til er planið að sinna þessu samviskusamlega í millitíðinni með t.d. eggjahræru og avocado í morgunmat (það er best!).
Annað sem ég skráði mig í í byrjun árs 2023 var Time Genius hjá Marie Forleo. Þú skráir þig einu sinni og færð lifetime aðgang að þessu námskeiði sem er alltaf live í byrjun árs. Þetta er alveg töluverð frjáfesting svo ég fór inn í þetta extra staðráðin í að láta þetta nýtast mér í mínu. Þarna var markmiðið hjá mér að læra að nýta tímann minn enn betur, halda einbeitingu við eitthvað eitt heldur en að fara úr einu í annað, og setja mér mörk. Líka til að læra að finna út hvað raunverulega skiptir máli og verja þá meiri tíma í það. Ég man á einum tímapunkti, eftir að hafa notað það sem ég lærði á þessu tímastjórnunarnámskeiði, upplifði ég mig allt í einu með svo mikinn frítíma að ég hreinlega vissi ekki hvað ég átti að gera við sjálfa mig 😅
Ég gæti endalaust skrifað hvað stóð upp úr árið 2023 en þá myndi þetta enda í einhvers konar mastersritgerð. Svo hér er það sem ég prófaði/las og/eða gerði reglulega yfir árið. Annars á ég eftir að finna þemaorðið mitt fyrir 2024 – er að prufa nokkur og sjá hvaða orð ég tengi við.
Ég lærði (og er enn að læra) spænsku í Duolingo appinu. Gerði 10 mínútna hugleiðslu flesta morgna. Bjó til Mood–Board inn á Pinterest sem ég nefndi „2023 væbs ✨“ og skoðaði/ las það flesta morgna áður en ég æfði mig í spænskunni. Ég byrjaði að stunda yoga reglulega og keypti prógram sem heitir Hips Like Honey, sem ég nota enn í dag og mun halda áfram að nota. Ég skráði mig á ballet dansnámskeið um haustið sem var virkilega krefjandi og gefandi á sama tíma. Ég byrjaði að skrifa reglulega í dagbók áður en ég fór að sofa og þá sérstaklega að skrifa það sem ég væri þakklát fyrir þann daginn. Ég hlustaði á Atomic Habits eftir James Clear (allavega 2x) þar sem hann talar um mikilvægi litlu venjana í lífinu og hvernig þær byggjast upp með hænuskrefum, hægt og rólega upp í eitthvað stórkostlegt. Ég enda því þessa bloggfærslu á einu sem ég las frá James og tengi mikið við:
To love your habits is to love your days and to love your days is to love your life.
Ef þú ert forvitin um eitthvað af þessu sem ég tel upp hér að ofan og vilt vita meira þá er ég meira en glöð að svara þeim spurningum/pælingum sem ég get. Það má alltaf senda mér tölvupóst á gunnhildurlind@gmail.com 🫶
Tvær spurningar fyrir þig – Ert þú með þemaorð fyrir árið 2024? Hefurðu pælt í því hvað þú lærðir árið 2023 og ætlar jafnvel að taka með inn í nýtt ár?
Þangað til næst,
Gunnhildur Lind