Það verður Borgarnesmynd á föstudögum
Flugeldasýning Björgunarsveitar Brákar á þrettándagleði Borgarbyggðar í Englendingavík Borgarnesi.
Áfram Borgarnes.
Ég hreinlega Borgarnesast stundum yfir mig, svoleiðis er það bara. Ég elska litla bæinn minn, ég elska að búa á landsbyggðinni og ég elska hversu stutt er að fara allt – hvort sem það er á bíl eða gangandi. Ég fer t.d. oft í göngutúr (yfirleitt sama hringinn hérna um gamla bæinn – ég kalla þetta að „viðrasig“), og oft fær myndavélin að fylgja með EF ég skildi sjá eitthvað smart. Ég reyni oft að skora á mig að finna nýja vinkla á gönguleiðum sem ég hef margoft farið. Í rauninni er þetta aldrei nákvæmlega sama leiðin, þannig séð. Skýin eru aldrei nákvæmlega eins og sólin og litirnir eru aldrei nákvæmlega eins heldur.
Með þessari hefð hef ég safnað allskonar myndum frá Borgarnesi og um daginn fékk ég flugu í hausinn að deila eitthvað af þessum myndum því flestar sitja þær bara á hörðum diskum hjá mér og safna „ryki.“
Frá þrettándagleði í Borgarbyggð.
Þannig að, bloggið í dag er ekki langt, heldur meira skrifað til að stilla upp þessu plani og markmiði hjá mér þetta árið, sem er að birta eina Borgarnes mynd, eftir mig, alla föstudaga, út árið, á Facebook síðu Gunnhildur Lind Photography. Ég er nú þegar búin að missa af fyrsta föstudegi ársins þannig í heildina verður þetta 51 mynd frá Borgarnesi ef ég næ þessu – sem er planið. Koma svo!
Þangað til næst,
Gunnhildur