Viðtal: Lóa í Hár Center um fermingargreiðslur
Fermingarnar eru á næsta leiti og aldrei of snemmt að skipuleggja sig. Flestar fjölskyldur eru líklega langt komnar með það og búnar að bóka flest eins og ljósmyndara og/eða tíma í greiðslu. Ég man þegar ég var að fermast 2004 að þá var aðalatriðið að bóka sal fyrir veislu, ákveða föt, bóka myndatöku og bóka í fermingargreiðsluna. Þetta var svona það helsta + að ákveða litaþemað. Alltaf var blessaða litaþemað mikilvæg ákvarðanataka 😅
Mér datt í hug að hafa samband við uppáhalds hárgelluna mína í Borgarnesi, hana Lóu í Hár Center, og fá hana til að svara nokkrum spurningum varðandi fermingargreiðslur fyrir komandi fermingartímabil sem gæti gagnast fjölskyldum í fermingargreiðsluhugleiðingum. Hver man ekki eftir að hafa verið að safna hári nánast allt miðstigið í grunnskóla fyrir ferminguna? Það er t.d. spurning sem ég spyr Lóu, ER gott að safna hári fyrir fermingu? Hér fyrir neðan má lesa svörin hennar Lóu.
Hvenær byrjaðiru að starfa við hárgreiðslu og hvað hefur Hár Center verið starfandi lengi?
Ég útskrifaðist frá Iðnskólanum í Hafnarfirði árið 2007 og var á samning á hárgreiðslustofu í Hafnarfirði. Eftir að ég útskrifaðist færði ég mig í Borgarnes. Ég og Auður opnuðum saman Hár Center árið 20016, við verðum 8 ára í sumar.
Hvenær byrjaru að taka við bókunum fyrir fermingargreiðslur? Ertu enn að taka við bókunum eða allt orðið fullt?
Við byrjum yfirleitt um eða eftir áramót að setja niður pantanir en oft eru mömmurnar farnar að heyra í okkur fyrr og þá skráum við það strax niður.
Hvað má gera ráð fyrir löngum tíma í greiðslu á fermingardaginn sjálfan?
Við gerum alltaf ráð fyrir klukkutíma greiðslu en það skýrist oft þegar þær hafa komið í prufugreiðslu eða klippingu fyrir fermingardaginn.
Hvað er gott að hafa í huga áður en komið er í greiðslu? Er t.d. gott að safna hári?
Það er auðvitað fallegast og skemmtilegast þegar hárið er heilbrigt og vel snyrt. Þá fær hárið að njóta sín vel og kemur best út. Greiðslur í dag eru svo fallegar og einfaldar.
Er mikið um trend á milli ára hvað varðar fermingargreiðslur? Hvað er t.d. trendið í ár?
Nei ég myndi ekki segja að það væri mikið trend á milli ára. Síðustu ár hafa þetta best verið liðir og krullur og svo er hárið aðeins tekið frá andlitinu með fléttum eða snúningum. Það hefur minnkað mjög mikið að nota hárskraut, stundum eru þó settar sætar perlur eða steina spennur. Blómið brúðarslör er alltaf mjög vinsælt og kemur vel út. En það er líka fallegt þega það er ekkert í hárinu og það fær bara að njóta sín.
Er eitthvað sem þér þykir extra skemmtilegt að gera þegar kemur að fermingargreiðslum?
Að mínu mati er einfaldleikinn lang skemmtilegastur. Stelpurnar eru allar svo fínar og sætar að það er langt flottast að hafa létta greiðslu.
Hér má sjá dæmi um einfalda og fallega greiðslu eftir Lóu. Léttir liðir settir í hárið og það tekið aðeins frá andlitinu með snúningum. Loks er blómið brúðarslör notað sem hárskraut.
Fylgir prufugreiðsla alltaf með fermingargreiðslunum?
Nei það er valfrjálst, sumar koma í snyrtingu og þá spjöllum við um greiðsluna og prófum kannski létta greiðslu. Það er mjög algengt að stelpurnar komi í tvær greiðslur, fyrir myndatöku ef hún er tekin áður og svo á fermingardaginn sjálfann.
Hægt er að fylgja Hár Center á Instagram og svo á Facebook. Hægt er að panta tíma hjá Lóu og Auði Ástu í síma 437-0102 og svo er alltaf hægt að koma við hjá þeim á stofunni á Borgarbraut 61 í Borgarnesi (bakvið Sjóvá). Persónulega finnst mér skemmtilegasta leiðin til að panta í klippingu, í persónu, alltaf fínasti göngutúr.
Þangað til næst,
Gunnhildur