Hæ ný heimasíða!
Frá nýlegum bíltúr á Búðir, Snæfellsnesi.
Setningin „Klára nýja heimasíðu“ hefur líklega verið á to-do listanum í meira en ár núna 🙄 Þessi setning er búin að stara á mig í hvert skipti sem ég opna ísskápshurðina, reyndar stendur „Finish Website“, ég er svo aaamrísk, en þú fattar hvað ég meina. Þetta er eitt af þessum verkefnum sem tekur ekki einn dag. En þetta er vissulega líka eitt af þessum verkefnum sem er auðvelt að mikla fyrir sér og endalaust verið að rembast við að hafa fullkomið (ef ég er alveg hreinskilin við sjálfa mig þá veit ég ekki einu sinni hvernig „fullkomið“ lítur út). Ég hef komist að niðurstöðu að ég ætla ekki að bíða eftir fullkomnun. Í staðinn ætla ég opna fyrir nýju heimasíðuna og hægt og rólega, laga hér og þar með tímanum. Sjá hvað virkar og hvað ekki.
Ég er ekki vefsíðuhönnuður. Ég er ekki með fjármagnið í dag til að ráða inn sérstakan vefhönnuð til að setja upp síðu fyrir mig nákvæmlega eins og ég sé hana fyrir mér (væri miklu frekar til í að uppfæra myndavélina mína t.d.). Ég þurfti samt ekki alveg að byrja frá grunni með þessa heimasíðu. Ég fann einn snilling í gegnum Pinterest sem hannar vefsíðu-skapalón á Squarespace. Hún rekur fyrirtæki heitir Big Cat Creative – „A designer website you’re obsessed with and a put-together business that feels digitally legit. On budget and done by you—with confidence. Should we pinch you now or later?“ – Það sem seldi mig var „legit“ og „On budget“ og „with confidence“. Þetta er svona DIY verkefni EN með hjálpardekkjum. Þekki stelpuna sem á fyrirtækið ekki neitt, en mikið er ég þakklát fyrir hana að búa til svona sniðugt (það er hægt að finna allt á netinu).
Ég hef komist að niðurstöðu að ég ætla ekki að bíða eftir fullkomnun.
Ég hef alltaf séð fyrir mér að hlutverk heimasíðu er eitthvað sem endurspeglar hvernig það er að koma í myndatöku til mín og/eða hvernig það er að hanga með mér, vera í kringum mig. Ég vil að heimasíðan sé hlýleg, smart og staður sem er skemmtilegur að heimsækja. Þetta er vissulega heimasíða á netinu en ekki litla kósí íbúðin mín sem ilmar stundum af nýbökuðum kanilsnúðum með Bossa Nova tónlist í bakgrunninum en það er væbið sem ég vil búa til hér. Það verður markmiðið mitt núna þegar þessi fína nýja heimasíða er nú komin í loftið.
…sem ilmar stundum af nýbökuðum kanilsnúðum með bossa nova tónlist í bakrunninum…
Mig langar líka rosalega mikið að fikra mig áfram í póstlistanum, byggja hann upp og búa þannig til góða stemningu í inboxinu hjá þér (og mér); deila bloggfærslum, deila því hvenær ég er með myndatökur og gefa þeim sem eru á póstlistanum auka þjónustu, auka fríðindi, eitthvað smá extra. Ég hreinlega kann ekki alveg á þetta póstlista apparat en ég finn út úr því hægt og rólega. Annað, þá er ég að fara af stað með haustmyndatökur. Ég meira að segja útbjó sér svæði á nýju fínu heimasíðunni með upplýsingum um allt tengt haustmyndatökum í ár. Smelltu hér til að skoða allt um það 🍂
Hef þetta ekki lengra í bili – hvernig finnst ykkur annars nýja fína heimasíðan? Megið endilega segja mér og ekki verra ef þið lumið á góðum hugmyndum fyrir síðuna sem gerir hana enn betri. Ég vil að hún sé easypeasy í notkun fyrir öll sem heimsækja hana 💛
Þangað til næst,
Gunnhildur Lind