Að velja föt fyrir fjölskyldumyndatöku: 6 einföld ráð til að gera valið auðveldara
Að fara í fjölskyldumyndatöku er stór stund fyrir margar fjölskyldur. Þetta eru myndir sem hanga á veggjum, rata í albúm og oft verður þetta skemmtileg minning fjölskyldunnar sem lifir um ókomin ár. En áður en myndatakan sjálf fer fram, þá kemur spurningin sem veldur mörgum hausverk: „Hvað eigum við að vera í?“
Ég spurði fylgjendur mína á Instagram um þetta og næstum 50% sögðu að þetta væri stressandi og kvíðavaldandi. Ef þú tilheyrir hópnum sem upplifir stress og áhyggjur yfir þessu, þá langar mig að hjálpa þér með einföldum ráðum sem geta gert ferlið auðveldara, jafnvel skemmtilegt.
Byrjaðu á litasamsetningu – ekki fullkomnun
Stundum virkar þetta verkefni yfirþyrmandi af því við höldum að við þurfum að finna „fullkomin föt“ fyrir alla í fjölskyldunni. En það eina sem raunverulega skiptir máli er að litatónninn í fatnaðinum virki vel saman.
Veldu 1–3 grunnliti sem passa saman (t.d. jarðlitir, pastellitir eða klassískir tónar eins og svartur, hvítur og grár).
Hugsaðu um umhverfið sem myndatakan fer fram í – náttúrulegir litir fyrir útimyndir eða mjúkir tónar fyrir ljósar innimyndir.
Það er í lagi að blanda saman munstrum og áferð, svo framarlega sem litirnir flæða vel saman.
Ekki ofhugsa þetta. Litatónninn skiptir meira máli heldur en hvernig tegund að peysu eða hvernig sniðið á henni er.
Byrjaðu á einni flík og byggðu út frá henni
Það er auðveldara að velja fyrir alla fjölskylduna þegar þú byrjar á einni flík sem þú elskar og byggir restina út frá henni.
Veldu t.d. fallega dresskyrtu fyrir þig, kjól fyrir dóttur eða peysu fyrir maka – og finndu síðan einfaldari flíkur fyrir hina sem passa við.
Þegar þú hefur eina flík sem þér finnst flott, verður mun auðveldara að velja það sem passar við.
Þetta minnkar stressið því þú ert ekki að reyna að velja allt í einu.
Ekki kaupa allt nýtt – notaðu það sem þú átt
Það er auðvelt að detta í þá gryfju að finnast maður þurfa að fara í stórinnkaup fyrir fjölskyldumyndatöku. Líklega áttu þegar föt sem virka fullkomlega saman.
Taktu til í fataskápnum fyrst – þú átt örugglega eitthvað sem passar vel saman.
Ef þér vantar eitthvað, prófaðu að fá lánaða flík frá vinkonu eða fjölskyldumeðlim.
Ef þú kaupir eitthvað nýtt, haltu því einföldu – keyptu bara eina lykil flík ef þarf.
Það mikilvægasta er að allir séu þægilegir og líði vel í fötunum sínum, ekki að þau séu splunkuný.
Hafðu það þægilegt – ekki bara fallegt
Það skiptir engu máli hversu falleg fötin eru ef börnin eru óþolinmóð og pirruð af því þau eru í einhverju sem klæjar, er of þröngt eða óþægilegt.
Prófaðu fötin fyrirfram og sjáðu hvort öllum líði vel í þeim.
Forðastu of þröng eða of hlý föt.
Hugsaðu líka um skóna – ef myndatakan er í náttúrunni, þá er betra að hafa þægilega skó frekar en nýja og stífa.
Þegar fjölskyldan er í þægilegum fötum, verða allir afslappaðri – og það skilar sér í fallegri myndum.
Ekki gleyma sjálfri þér
Ég veit að margar mæður eyða allri sinni orku í að velja föt fyrir alla aðra og gleyma síðan sjálfum sér. Það endar oft þannig að þær henda sér í eitthvað á síðustu stundu sem þær eru ekki alveg sáttar við.
Veldu föt fyrir sjálfa þig fyrst og láttu restina af fjölskyldunni aðlagast við það.
Klæddu þig í eitthvað sem lætur þér líða vel og örugga.
Hafðu hár og förðun náttúrulegt (þetta er ekki tíminn til að prófa cateye eyeliner í fyrsta skiptið).
Ef þér líður vel, þá mun það sjást á myndunum.
Leyfðu ófullkomleikanum að vera hluti af tökunni
Við viljum öll fallegar fjölskyldumyndir, en stundum verða ófullkomnu augnablikin þau allra fallegustu og skemmtilegustu.
Ef börnin eru aðeins villt eða einhver hlær á „vitlausum“ tíma – leyfðu því að gerast.
Ekki stressa þig á smáatriðum – góður ljósmyndari grípur augnablikin og leiðbeinir ykkur.
Þessar myndir snúast um að fanga fjölskylduna eins og hún er – ekki að vera með fullkomna tískusýningu.
Þegar þú slakar á og leyfir fjölskyldunni að vera hún sjálf, verða myndirnar enn dýrmætari.
Það þarf ekki að vera yfirþyrmandi að ákveða föt fyrir fjölskyldumyndatöku. Með því að halda hlutunum einföldum, velja þægileg föt og ekki ofhugsa smáatriðin, geturðu gert ferlið miklu afslappaðra.
Hafandi sagt allt þetta fyrir ofan, þá vil ég minna á þetta lykilatriði: Það sem skiptir mestu máli er ekki hverju þið eruð í, heldur hvernig ykkur líður. Ef fjölskyldan er afslöppuð og þér líður vel, þá skilar það sér í fallegum, hlýjum og eigulegum myndum, óháð því hverju allir eru klæddir í.
Þannig að, andaðu rólega, finndu nokkrar flíkur sem virka saman og mundu – þetta á að vera skemmtilegt.
Ef þú vilt fleiri hugmyndir þegar kemur að fatavali fyrir fjölskyldumyndir, kíktu á þessa bloggfærslu þar sem ég deili leiðum hvernig má finna innblástur á miðlum eins og Instagram og Pinterest.
Þangað til næst,
Gunnhildur Lind