Hvað skiptir mestu máli í brúðkaupsathöfn? Heiðrún Helga prestur deilir sinni sýn
Brúðkaupsdagurinn er alltaf stór dagur í lífi fólks. Þetta er dagur fullur af tilfinningum, væntingum og einstökum augnablikum. Ég fékk að senda Heiðrúnu Helgu, presti í Borgarprestakalli, nokkrar spurningar um hennar hlutverk og upplifun af brúðkaupum. Hvernig ferlið við að bóka prest gengur fyrir sig og hvernig hægt er að sérsníða athöfnina að brúðhjónunum. Heiðrún leggur mikla áherslu á að mæta fólki þar sem það er statt og skapa athöfn sem speglar þeirra persónuleika og samband.
Í þessu viðtali gefur hún innsýn í hvernig hún nálgast hjónavígslur, hvað skiptir máli í undirbúningnum og af hverju brúðkaup eru aldrei eins. Einnig deilir hún nokkrum ógleymanlegum augnablikum úr brúðkaupum sem hún hefur leitt – þar á meðal því þegar hún laumaðist inn bakdyramegin í jólaboð til að gifta par! Hvort sem þú ert að skipuleggja þitt eigið brúðkaup eða ert bara forvitin/n um hvernig þetta ferli virkar, þá er þetta viðtal fullt af skemmtilegum pælingum og góðum ráðum.
Viðtalið við Heiðrúnu 👇
Af hverju þú ákvaðst þú að verða prestur og hvenær byrjaðiru að starfa í Borgarnesi sem prestur? Hvað þú leggur helst áherslu á í þínu hlutverki sem prestur og af hverju?
Ég heiti Heiðrún Helga og ég er prestur í Borgarprestakalli. Ég er búin að starfa sem prestur í rúm tvö ár, eða frá október 2022. Ég var semsagt orðin dálítið gömul þegar ég skipti um starfsvettvang, hafði unnið með innflytjendum og fólki á flótta öll mín fullorðinsár og hélt ég myndi aldrei vinna við annað. En svo vígðist ég sem prestur daginn eftir fertugsafmælið mitt og sé alls ekki eftir að hafa skipt um starfsvettvang - þó ég sakni þess oft að vera í samskiptum við fólk af öðrum trúarbrögðum og menningarheimum. Gildin mín í hlutverki mínu sem prestur eru þau sömu og í mínum fyrri störfum - mæta fólki í kærleika og kannski sérstaklega að mæta fólki þar sem það er hverju sinni. Við prestar mætum fólki í allskonar aðstæðum og það er mikilvægt að við séum næm á líðan fólks.
Hvernig bóka brúðhjón prest fyrir brúðkaupið sitt? Hvað er fyrsta skref, og má bóka hvern sem er? Eða er hver prestur með sína kirkju ef svo má segja?
Það er svo misjafnt hvað er fyrsta skref - sum brúðhjón eru alveg ákveðin með staðsetningu fyrir athöfnina, annað ekki svo mikilvægt. Sum vilja sérstaka dagsetningu, annað ekki svo mikilvægt. Sum vilja sérstakan prest og ákveða rest út frá því. Það er allur gangur á þessu. Fyrsta skrefið er í raun bara að ákveða að innsigla ástina með þessum hætti. Hvort sem presturinn mætir óvænt í jólaboð, hvort það er fámenn athöfn í kirkju eða fjölmenn athöfn í veislusal. Í litlum samfélögum úti á landi er presturinn nú bara bókaður í grænmetiskælinum í Bónus eða á bekknum fyrir utan klefana í íþróttahúsinu, haha :) Sum senda líka tölvupóst, hringja eða senda skilaboð á messenger, allur gangur á því. En þá er farið í að negla niður dagsetningu og staðsetningu - stundum með mjög löngum fyrirvara, en stundum bara vikuna eftir. Allir prestar eru með ákveðnar kirkjur og sóknir sem við þjónum - en ef brúðhjón hafa samband við mig og vilja nota eina af ,,mínum kirkjum” en eru með sinn eigin prest með sér, þá er það meira en sjálfsagt. Það er bara gaman að því - og við prestar eigum náttúrulega ekkert kirkjunar - þetta eru guðshúsin okkar allra.
Hvernig fer ferlið hjá þér við undirbúning brúðkaupsathafnar fram og hvað er gott fyrir brúðhjón að huga að áður en þau hitta þig? Ertu með ákveðið ferli þegar kemur að brúðkaupum?
Það er ákveðið undirbúningsferli sem er alltaf eins. Svona mánuði fyrir brúðkaup sendi ég brúðhjónunum tölvupóst með praktískum atriðum sem þau svara. Hvort það eru hringar eða ekki - hvort það er hringaberi - hvort það er tónlist - hvort brúðhjónin vilja labba saman inn kirkjugólfið eða í sitthvoru. Eða hvort þau vilja bara alls ekki ganga inn kirkjugólfið. Það er ekkert rétt eða rangt í þessum efnum og mér finnst nauðsynlegt að fólk viti það - að þetta er þeirra dagur og á að vera sérsniðinn eftir þeirra þörfum og persónuleika. Það er agalegt ef einhver eru hikandi að gifta sig því þau geta ekki hugsað sér að labba inn eitthvað kirkjugólf með allra augu á sér. Þá þurfa þau þess bara ekki neitt! Þetta er þeirra dagur og mikilvægt að þeim líði vel og geti notið stundarinnar á sínum forsendum.
Stuttu fyrir stóra daginn sendi ég parinu spurningar hvort um annað sem ég bið þau um að svara í sitthvoru lagi. Þau svör nota ég svo til þess að semja persónulega ræðu til þeirra sem ég flyt í athöfninni. Svo hitti ég fólk á brúðkaupsæfingu nokkrum dögum fyrir athöfn. Þar rennum við í gegn um athöfnina - gjarnan með vitnum og þeim sem taka þátt í athöfninni með einhverjum hætti. Mér finnst líka mikilvægt ef fólk á börn, að þau séu búin að koma í kirkjuna, geti séð fyrir sér hvernig þetta verður allt saman. Ákveðið hvar þau ætla að sitja og svona. En ég segi fólki alltaf að það er ekkert sem þau þurfa að muna. Þetta er ekki sýning - þetta er athöfn - sem ég held utan um, og ég leiði þau skref fyrir skref í gegnum þetta allt saman. Mér finnst æfingin samt mjög mikilvæg því mér finnst gott að hitta brúðhjónin til þess að finna orkuna þeirra og spjalla um þeirra væntingar. Það er allt annað en að fá það skriflega í tölvupósti.
„Það er engin athöfn eins og það elska ég við brúðkaupin.“ – Heiðrún Helga.
Er eitthvað sem þú sérstaklega leggur áherslu á í brúðarvíxlum? Af hverju?
Ég legg áherslu á að athöfnin og andrúmsloftið sé í anda brúðhjónanna. Að öllum líði vel. Athafnirnar eru eins misjafnar eins og þær eru margar. Því það er ekkert par eins. Stundum er stundin rosalega hátíðleg - og þá fer ég í þann gír. Stundum er rosalega mikið fjör og læti - þá fer ég í þann gír. Stundum er allt mjög tilfinningaþrungið - því aðstæður hjá fólki eru allskonar. En það er alltaf mikil gleði. Hún birtist bara á svo ólíkan hátt. Það er engin athöfn eins og það elska ég við brúðkaupin. Ég er auðvitað alltaf ég sjálf í mínu hlutverki, en það verður að lesa vandlega í aðstæður og haga sér eftir því. Ég var til dæmis einu sinni með athöfn þar sem voru bara foreldrar og börnin þeirra viðstödd. Ræðan mín var þá að mestu leiti löguð að krökkunum - því mér fannst mikilvægt að þau ættu jafn mikið í stundinni og mamma þeirra og pabbi. Ég sagði þeim - á máli sem talaði til þeirra - hvernig mamma þeirra og pabbi kynntust, af hverju pabbi þeirra er svona skotin í mömmu þeirra og af hverju mamma þeirra hlær svona hátt, með stjörnur í augunum, þegar pabbi þeirra er að stríða henni. Bara lítið dæmi um það hvernig ég laga athafnir að fólkinu sem ég er að þjóna. Því þetta er þjónusta sem ég veiti. Og þau sem þiggja þjónustuna ráða för.
Hversu mikið rými er til að sérsníða athöfnina að brúðhjónum, t.d með ljóðalestri, tónlist eða eigin heitum?
Það er mikið rými! Og ég legg mikla áherslu á það við fólk. Það má allt! Það er ekkert rétt og það er ekkert rangt í svona athöfnum. En það er alltaf ég sem set athöfnina upp og leiði hana frá A-Ö. Svo það eru ákveðnir fastar sem eru alltaf með en mér finnst til dæmis rosalega fallegt og skemmtilegt ef nánasta fjölskylda eða vinir taka þátt í athöfninni með einhverjum hætti. Svo stundum vill fólk að ég sjái um þetta frá A-Ö og þá geri ég það auðvitað.
Ef brúðhjón vilja gifta sig úti, einhvers staðar í íslenskri náttúru – er ekkert mál að fá prest í það?
Ég get auðvitað bara talað fyrir mig - en mér finnst dásamlegt þegar fólk vill gifta sig í náttúrunni. Það er ekki til fallegri kirkja heldur en náttúran okkar hér á Íslandi. Og þó veðrið geti verið allskonar - þá er allt veður gott veður og alveg eins og það á að vera, þegar við erum í aðstæðunum. Fyrsta brúðkaupið mitt var úti og ég var búin að vera svo stressuð um hvernig veðrið yrði, hvernig ég ætti að klöngrast í fullum skrúða niður einhverja kletta niður að fossi í rigningu og leðju. En svo var þetta alveg fullkomið set up og ég fann strax að það var ekkert að stressa sig yfir. Nema ég þurfti að góla alla ræðuna á hæsta raddstyrk því það voru svo mikil læti í fossinum… en okkur brúðgumanum fannst líka fínt að fá úðann úr fossinum framan í okkur, því þá sást ekki eins greinilega að við vorum bæði skælandi, haha…
Hvað finnst þér mikilvægt að við brúðhjón viti og geri til að undirbúa sig andlega fyrir stóra daginn?
Ég veit ekki hvort það er hægt að segja það - fólk verður að finna það - en það er svo mikilvægt að reyna að vera 100% til staðar í stundinni. Draga andann djúpt og njóta. Ég skil alveg að fólk sé stressað, og kannski í ákveðnu spennufalli. Oft er margra mánaða undirbúningur að baki og loksins er komið að stóra deginum. En kannski er mikilvægt að minna sig á það reglulega í aðdraganda brúðkaups, að þetta er vissulega mikill hátíðisdagur. En það er aldrei hægt að búast við því að dagurinn verði 100% fullkominn. Allavega ekki ef við mælum út frá praktískum atriðum. Ég held það sé mjög erfitt að standa undir þeim væntingum ef einhver einn dagur á að vera fullkominn frá a-ö. Það er hægt að skipuleggja hlutina út í minnstu smáatriði, svo bara gerist allskonar. Það er bara hluti af sjarmanum. Og mikilvægt að brosa og anda sig í gegn um það. Það er til dæmis mjög sorglegt ef fólk upplifir að dagurinn sé ,,ónýtur” ef það er rigning (sem gerist oft), ef brúðarvöndurinn gleymist heima (sem gerist oftar en fólk heldur), eða ef eitthvað annað óvænt kemur upp á. Ég var til dæmis einu sinni með brúðkaup og börnin stóðu með foreldrunum við altarið. Litla stelpan þeirra hélt í höndina á pabba sínum og ég tók eftir því að hún var farin að iða. Hún vildi samt greinilega ekki trufla, heldur togaði ákveðið í höndina á honum af og til. Þegar ég var búin að bera upp spurninguna: Vilt þú… ganga að eiga… ? Þá heyrðist í litlu: ,,pabbi, ég þarf að pissa!” Það sprungu nátturlega allir úr hlátri. Og ekki var hægt að hafa barnið þarna í pissuspreng. Svo það var ekkert flóknara en það, að pabbinn fylgdi sinni allra bestu á klósettið, svo komu þau aftur og það var hægt að halda áfram með athöfnina. Þetta verður ógleymanleg sena í þeirra minningu og skemmdi ekkert fyrir - síður en svo!
Eru einhverjar hefðir eða siðir sem fylgja kirkjulegum hjónavígslum sem brúðhjón og fólk almennt mætti kynna sér betur?
Nei. Það er stutta svarið, haha! Fólk er stundum að spyrja mig: á pabbinn að leiða brúðina upp að altarinu? Eiga konurnar að sitja öðrum meginn og karlarnir hinum meginn? Á fjölskylda hennar að sitja öðrum megin og hans hinum meginn? Sem er kannski viðkvæmt ef annað kemur úr stórri fjölskyldu og hitt úr mjög lítilli. Og fólk veit ekki alveg hvernig það á að vera því það heldur að hlutirnir eigi að vera svona eða hinsegin í kirkjunni. En það er alls ekki þannig. Bara alls ekki. Auðvitað er til fólk sem elskar hefðir og finnst mikilvægt að þeim sé fylgt. Ég hef verið með athöfn þar sem brúðhjónin voru búin að lesa um alla mögulega siði tengda brúðkaupsathöfnum frá þeirra heimalandi, sem þeim fannst mikilvægt að fylgja. Og þá gerðum við það og það var rosalega fallegt. En mér finnst mikilvægast að fólki líði vel og geti verið það sjálft. Hlutirnir eiga ekkert að vera svona eða hinsegin. Þeir eiga bara að vera kærleiksríkir og sérsniðnir að brúðhjónunum hverju sinni.
Hvaða ráð myndir þú gefa brúðhjónum (og jafnvel aðstandendum) til að minnka stress í athöfninni sjálfri?
Að hafa athöfnina nákvæmlega eins og þið viljið hafa hana. Ekki láta aðstandendur eða vini vera að hafa áhrif á ykkur. Það er auðvitað vel meint, en þetta er ykkar dagur! Við erum svo ólík og ef fólk vill hafa 200 manns og heila lúðrasveit í athöfninni, þá er það dásamlegt. En ef brúðhjónin vilja bara vera tvö, þá er það fullkomið líka. Ég held að það minnki stress að vera í aðstæðum þar sem fer vel um okkur og fólkið okkar. Það segir sig líka eiginlega sjálft - ef brúðhjón eru með þrjú lítil börn, þá verður að vera ákveðið flæði og pláss til þess að þau séu að brölta frá ömmu og afa og upp í fangið á foreldrum sínum við altarið. En ef brúðhjónin eru á efri árum og bara fullorðið fólk í athöfninni, þá er hægt að hafa ræðuna lengri og sníða athöfnina eftir því. Svo stutta svarið - til að minnka stress - er að athöfnin sé eins sniðin að ykkar þörfum og aðstæðum og hægt er.
Er einhvers konar eftirfylgni frá prest eftir brúðkaup?
Ég skrifa fólki alltaf tölvupóst eftir athöfnina til þess að þakka fyrir daginn. Ég set ræðuna smart upp með fallegri forsíðu með nöfnum brúðhjónanna og dagsetningu og læt fylgja með í viðhengi. Þetta eru fyrst og fremst orðin þeirra hvert til annars - ásamt orðum frá mér til þeirra. Ég hugsa því alltaf að það gæti verið gaman að eiga ræðuna til minningar um þennan stóra dag. Sérstaklega því stundum er fólk ekki alveg með hugann á staðnum þegar ég flyt þeim ræðuna, haha - að taka utan af sleikjó fyrir óþolinmótt barn, með fangið fullt af börnum eða að hugsa um forréttinn í veislunni á eftir. Þá sé ég fyrir mér að það sé notalegt að geta sest saman og lesið þessi orð seinna. Í tölvupóstinum minni ég fólk svo á að þau eiga mig að með hvað sem er og að þau geti alltaf leitað til mín. Það er eina svona fasta eftirfylgnin.
Er eitthvað, sem sem brúðhjón vita kannski ekki af, sem væri sniðugt að gera/huga að í kringum brúðkaupið sitt?
Sem prestur er kannski ekkert sérstakt sem mér dettur í hug, en persónulega mæli ég með því að fólk sé með ljósmyndara með sér til þess að festa þessa dýrmætu stund á filmu. Þegar við Michael maðurinn minn giftum okkur var enginn viðstaddur nema vitnin okkar tvö - og ég ákvað svo á síðustu stundu að hafa ljósmyndara með okkur. Eftir á að hyggja er ég svo fegin að hafa gert það, því það hefði verið ótrúlega leiðinlegt að eiga engar myndir frá þessum degi. Þá man ég einmitt að presturinn sagði að ljósmyndarinn mætti fara um allt og taka myndir, en rétt á meðan við vorum að játast hvert öðru átti hún að taka pásu, því það heyrðist svo hátt hljóð í vélinni. Og mér fannst það rosalega fallegur vinkill. Það var alveg hljóð og heilög stund. Svo ég hef einhvern vegin haldið því sem prestur líka - mér finnst allt í lagi að ljósmyndararnir séu uppi um allt og úti um allt á meðan athöfn stendur, en ég spyr alltaf fyrirfram hvort það heyrist hátt í vélinni, og þá bið ég um að það sé tekin pása rétt á meðan brúðhjónin segja já. En þetta var nú í gamla daga og ekkert víst að heyrist hátt í myndavélum lengur
Annars er bara mikilvægt og eðlilegt að prestur, ljósmyndarar, tónlistarfólk og aðrir sem að athöfninni koma, stilli saman strengina áður en athöfnin byrjar. Svo þetta sé allt í eins miklu og eðlilegu flæði og hægt er.
Er eitthvað eitt brúðkaup sem er eftirminnilegra en annað? Eitthvað óvænt sem hefur gerst og hvernig endaði það?
Sko mér finnst þau öll eftirminnileg - þetta er svo sérstakur dagur og andrúmsloftið í athöfninni er ólýsanlegt.. Þetta er aldrei eins. Mér finnst alltaf rosalega fallegt þegar athafnirnar eru á fleiri tungumálum, því ég er sjálf gift dönskum manni og ég verð alltaf dálítið hrærð þegar ég tala dönsku í athöfninni. Einu sinni var ég með norskt brúðkaup - og ég kann ekki norsku, svo við norski presturinn stóðum hlið við hlið og skiptumst á að flytja textann á íslensku og norsku. Svo var farið með faðir vor á íslensku og norsku - og þá hljóp keppnisskap í kirkjugesti, fólk reyndi að yfirgnæfa hvort annað í raddstyrk og hraða, haha.. Það er líka ógleymanlegt þegar ég laumaðist inn bakdyramegin í jólaboði og birtist svo á stofugólfinu í fullum skrúða til þess að gifta. En þetta eru bara nokkur dæmi, eins og ég segi - allar athafnir eru einstakar og alveg fullkomnar.
Kannski eitt sem gerðist óvænt fyrir ekki svo löngu, því ég get sjálf verið svo hvatvís. Þegar ég var að blessa brúðhjónin í enda athafnar, datt mér allt í einu í hug að biðja kirkjugesti að koma og leggja höndina á öxlina á þeim, og hvert á öðru. Svo brúðhjónin voru beinlínis blessuð í bak og fyrir. Svo þegar ég var búin að blessa og leit yfir hópinn, þá var þetta svo smart að ég ruddi mér leið gegnum þvöguna, bað alla að snúa sér við og tók mynd af kirkjugestum með brúðhjónin í miðjunni. Mér fannst þetta svo fallegt og skemmtilegt að ég hef gert þetta nokkrum sinnum síðan. En þetta er doldið kaos svo ég verð að vera viss um að brúðhjónin þoli þannig hamagang og læti áður en ég skelli í svona atriði. En stutta svarið er, að öll brúðkaup sem ég hef verið með eru eftirminnileg og það er svo mikill heiður að fá að taka þátt í þessari stóru stund með fólki.
Eitthvað að lokum?
Takk fyrir að leyfa mér að svara þessum skemmtilegu spurningum. Það er svo gaman að fá að setjast niður og hugsa um öll þessi skemmtilegu og einstöku brúðkaup sem ég hef fengið að taka þátt í!
Heiðrún Helga prestur er með instagrammið @borgarprestakall_ Hvet þig til að follow-a hana þar, þó það sé ekki nema til að fá smá jákvætt og hlýlegt á feed-ið með dass af fróðleik ✨
Þangað til næst,
Gunnhildur Lind