Hvernig má nýta myndir frá árinu fyrir jólin
Nú þegar jólin nálgast, er tilvalið að líta um öxl og rifja upp minningar frá árinu sem er að líða. Eftir myndatökur, ferðalög og gleðistundir safnast oft saman fjöldinn allur af myndum sem eru oftar en ekki geymdar í tölvunni eða símanum. Af hverju ekki að gefa þessum myndum líf á nýjan hátt og nota þær til að skapa persónulegar og hlýlegar jólagjafir? Hér eru fjórar hugmyndir um hvernig þú getur nýtt myndir frá árinu fyrir jólin.
1. Jólakort og/eða pakkakort
Það er fátt skemmtilegra en að fá jólakort með mynd af fólkinu sem manni þykir vænt um eða frá extra góðum degi á árinu sem er að líða. Veldu uppáhalds myndirnar þínar með þínu uppáhalds fólki, prentaðu þær út og búðu til jólakort og/eða pakkakort. Þú getur sett myndirnar á kortið með skemmtilegri jólaskreytingu og/eða skrifað hlýlega kveðju með. Þetta er yndisleg leið til að láta fjölskyldu og vini vita að þú ert að hugsa til þeirra.
2. Búðu til dagatal
Hvað er betra en að geta litið á myndir með uppáhalds fólkinu þínu allt árið um kring? Ég veit að þetta er mjög vinsæl gjöf t.d. til ömmu og afa. Búðu til dagatal fyrir komandi ár með myndum frá liðnu ári. Veldu myndir af góðum stundum og/eða eftirminnilegum augnablikum – eina fyrir hvern mánuð. Þetta er frábær jólagjöf fyrir vini og fjölskyldu sem munu njóta þess að sjá nýja mynd í hverjum mánuði og rifja upp góðar minningar.
3. Settu mynd á bolla, púða…
Ef þú vilt skapa hlýlegar og einstakar jólagjafir skaltu nýta myndirnar þínar til að búa til persónulegar vörur. Þú getur látið prenta myndir á bolla, púða, taupoka eða aðrar jólatengdar gjafir. Þetta gerir jólagjafirnar bæði skemmtilegar og persónulegar. Plús, gæti orðið fyndið móment á jólunum.
4. Mynd í ramma
Ef þú ert að leita að gjöf sem er í veglegri kantinum, þá er stór innrömmuð mynd alltaf sígilt. Veldu fallega mynd frá árinu, láttu prenta hana á fallegan ljósmyndapappír, settu hana í ramma með kartoni, og hengdu hana upp á vegg. Þetta getur verið fjölskyldumynd, mynd af landslagi í heimahögum eða eitthvað sem hefur sérstaka merkingu fyrir þann sem fær myndina (t.d. uppáhalds fjall eða fjörður). Ég er sjálf með mynd af Hafnarfjall á stofuveggnum heima hjá mér.
Gefðu myndunum þínum líf með því að prenta þær út á einn eða annan hátt, skiptir engu máli hvort það sé símamynd eða mynd sem ljósmyndari tók á fancy cameru. Ég ætla að nota þetta sem hvatningu fyrir sjálfa mig, að prenta út myndir. Mig hefur lengi dreymt um að gera myndabók með myndum frá árinu. Kannski ég geri það bara, loksins. Prentum út myndirnar okkar. Koma svo.
Þangað til næst,
Gunnhildur